Spurning:
Hvað er svokölluð millirifjagigt? Er líklegt að um slík gigtareinkenni geti verið að ræða þegar verkur og herpingur (þörf á að kreppa sig saman) á sér tíðum stað eingöngu við hjartað, og stendur yfir í 1 – 5 mínútur í senn?. Ath. ekki er um seiðing fram í hendi að ræða. Getur vökvaskortur (væntanlega vegna mikillar kaffidrykkju, (einkum "instant" kaffi) haft slæm áhrif fyrir hjartastarfsemi? Ber fólki sem er í "áhættufjölskyldum" hvað varðar hjartasjúkdóma að varast átaksíþróttir?
Svar:
Millirifjagigt er vöðvagigt í smávöðvum þeim sem liggja á milli rifjanna í brjóstkassanum. Þannig gigt er nokkuð algeng og einkenni sem þú lýsir gætu vel átt við hana. Ekki hefur verið sannað að kaffidrykkja hafi skaðleg áhrif á hjarta eða æðakerfi. Allir drykkir sem innihalda koffein (kaffi, kók o.þ.h.) geta þó valdið nokkrum hjartslætti. Kaffi hefur lítilsháttar þvagræsiáhrif, (auka útskilnað á vökva) en þessi áhrif eru ekki talin neitt skaðleg. Íþróttir eru yfirleitt heppilegar fyrir hjarta- og æðakerfi en þó eru áhrifin betri af úthaldsíþróttum, t.d. göngu, skokki, sundi, hjólreiðum o.þ.h. en átaksíþróttir (lyftingar o.þ.h.) hafa lítil áhrif til að bæta starfsemi hjarta- og æðakerfis og geta jafnvel verið varasamar, sérstaklega ef einhver æðakölkun er til staðar.
Nikulás Sigfússon ,
MD Heart Preventive
Clinic Icelandic Heart Association