Á erfitt með svefn á meðgöngunni?

Spurning:
Ég er komin rúma 4 mánuði á leið og hef átt í erfiðleikum með svefn sl. 3-4 vikur. Það er sama hvenær ég sofna ég sef aldrei meira en 3-6 klst í einu, mjög algengt er að ég vakna um kl 5 á morgnana en virðist svo oft ná að sofna örlítið rétt um kl. 7 en vekjaraklukkan hringir einmitt rúmlega 7.

Áður var ég von að sofa helst aldrei minna en 8 tíma oft 9. En þegar ég vakna núna á nóttunni virðist ég gjörsamlega útsofin en stuttu eftir að ég mæti til vinnu að þá er ég alveg í stökustu vandræðum vegna syfju. Nú er farið að bera á höfuðverk sem ég tel vera út af þreytu/svefnleysi og á mjög erfitt með að umbera hann. Að öðru leyti hef ég verið mjög frísk. Eitt sem mér hefur dottið í hug er að ég hef ávallt verið mjög lág í blóðþrýsting og þá er ég að tala um að í efri mörkum greinist ég sjaldnast yfir 100 en núna þegar ég hef sjálf verið að mæla mig að þá er ég komin í um 115. Ég er starfandi millistjórnandi og hef það því mjög náðugt líkamlega í vinnunni, aðeins meira andlegt álag.

Vonandi hefur þú svar handa mér.

Svar:
Svefntruflanir eru mjög algengar á meðgöngu en þó misjafnt hve miklar þær eru eða hversu snemma í meðgöngunni þær byrja. Yfirleitt á konan auðvelt með að sofna, svona þegar hún er búin að koma sér fyrir í rúminu, en vaknar upp eftir nokkra tíma og getur þá ekki sofnað aftur. Náttúran gerði greinilega ekki ráð fyrir því að konur væru í dagvinnu meðan þær ganga með börn því besti svefninn er oft milli kl. 6 og 10 á morgnana. Hvað er þá til ráða?

Fyrir utan að láta undan þessu og vinna á þeim tíma sem þú ert vakandi er reynandi að bæta svefninn með hæfilegri hreyfingu og útivist, dekra við sjálfa þig á kvöldin með góðu baði og fótanuddi og fara ekki seint að sofa. Mörgum hefur gefist vel að stunda jóga, sumar taka inn kalktöflur fyrir svefninn og gömul húsráð ráðleggja konum að drekka glas af flóaðri mjólk með hunangi eða borða banana fyrir svefninn. Svo er hægt að virkja sæluhormóna líkamans með því að hafa samfarir þegar þú getur ekki sofið og þegar þú vaknar á nóttinni er ráð að kveikja ekki ljós og læðast um þegar þú ferð framúr – láta þannig líkamann vita að það er nótt og hann á að sofa. Ef ekkert dugar er bara að fara í slopp og hlýja sokka (það er mikilvægt að verða ekki kalt á fótunum) og hreiðra um sig í sófanum með bók eða blað frekar en að ergja sig á því að geta ekki sofið – því þá getur maður enn síður sofið.

Svo er bara að leggja sig þegar þreytan segir til sín – korters hvíld getur bjargað deginum.

Vona að þetta hjálpi eitthvað.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir