æðaþrengsli í fótum.

Hef heyrt að gott sé að sjóða nýjar rauðrófur og drekka safann, hefur það gagnleg áhrif á æðaþrengsli í fótum. Takk.

 

Komdu sæl/l og þakka þér fyrir fyrirspurnina.

Sumir tala um rauðrófur og rauðrófusafa sem ofurfæðu. Rauðrófur eru ríkar af næringarefnum eins og C-vítamíni, fólínsýru, járni, magnesíum, kopar, kalíum, mangan, fosfór, trefjum, andoxunarefnum og nítrötum.

Hráar rauðrófur er ríkar af nítrati. Í líkamanum fara fram efnaskipti sem breyta nítrati í nituroxíð sem hefur mörgum hlutverkum að gegna í líkamanum t.d. í blóðflæði, samdrætti vöðva, æðavíkkun og fleira.  Einnig eru rauðrófur trefjaríkar og því góðar fyrir meltinguna.

Neysla á hráum rauðrófum eða kald-pressuðum rauðrófusafa getur haft jákvæð áhrif á blóðþrýsting og blóðflæði með því að hafa æðaslakandi áhrif og hugsanlega til lækkunar á blóðþrýstingi.

Gangi þér vel,

Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur