Af hverju ekki til töflur við hósta?

Spurning:
Góðan daginn.
Mig langar að vita út af hverju er ekki selt hér á Íslandi töflur eða belgir fyrir hósta? Ég bjó erlendis í mörg ár og þar gat ég farið í apótekið og keypt mér eitthvað annað en hóstamixtúru (get alls ekki drukkið lyf í fljótandi formi) fyrir hósta og það án lyfseðils. Hvað er eiginlega til ráða þegar maður stendur á öndinni út af hósta og getur ekki torgað þessum hræðilegum mixtúrum?
Kær kveðja.

Svar:

Þar til fyrir nokkrum árum voru á markaði hér töflur sem innihéldu efnið noskapín sem voru notaðar til að stilla hósta. Þær voru þó eingöngu fáanlegar gegn lyfseðli. Í dag er mér vitanlega ekkert lyf á töfluformi á markaði hér beinlínis við hósta. Ástæðan fyrir því að ekki eru nein hóstastillandi lyf á markaði hér er líklega sú að sala á slíkum lyfjum reyndist það lítil að ekki svaraði kostnaði að hafa þau á markaði. Venjulegur hósti sem fylgir kvefi og öðrum sýkingum í öndunarvegi er eðlilegt fyrirbæri og ekki ástæða til að stöðva hann þar sem hlutverk hóstans má segja að sé að koma slími og óhreinindum upp úr lungunum. Mikill hósti af öðrum ástæðum getur verið tákn um sjúkdóma í öndunarvegum, eins og t.d. asma, sem vert er að ræða við lækni.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur