Af hverju er sykur er minna fitandi en fita?

Spurning:

Ég las um það hér á Doktor.is að sykur væri ekki fitandi nema hans væri neytt í mjög miklu magni. Eftir hverju er þá farið þegar sagt er að manneskjan þurfi ákveðið margar hitaeiningar á dag? Þýðir þetta að maður fitni af því að neyta 2000 hitaeininga af fituríkum mat á dag en fitnar ekki af 2000 hitaeiningum úr kolvetnaríkum, fitusnauðum mat? Skipta hitaeiningarnar kannski ekki svo miklu máli, heldur frekar úr hverju þær eru samsettar?

Takk fyrir.

Svar:

Ástæðan fyrir því að sykur er minna fitandi en fitan er sú að hvert gramm af sykri gefur 4 he meðan hvert gramm af fitu gefur 9 he. Þannig gefa 500 g af sykri en ekki nema u.þ.b. 220 g af fitu 2000 hitaeiningar (ég mæli þó ekki með slíkri neyslu!). Þetta er ástæðan fyrir því að ráðlagt er að skera niður fitu – hún er svo orkuþétt. Menn ná að innbyrða fleiri hitaeiningar í færri bitum ef maturinn inniheldur mikla fitu.

Það hefur verið hægt að sýna fram á að það skiptir máli hvaðan hitaeiningarnar koma. Til dæmis nýtum við hitaeiningar úr fitu mun betur en úr kolvetnum og prótein nýtast ennþá ver til orkumyndunar. Þannig er hægt að segja að fitan sé mest fitandi en próteinhitaeiningarnar minnst. Það er þó óþarfi að vera að telja hitaeiningar daginn út og inn. Flestir Íslendingar borða of mikla fitu og aðalráðleggingin er að minnka fituneyslu og auka á móti neyslu á ávöxtum, grænmeti og grófu korni. Við það kemst sjálfkrafa gott jafnvægi á mataræðið án þess að við þurfum að vera á reiknivélinni allan daginn að telja hitaeiningar.