Áfallastreita

Fyrirspurn: 

Sæl,

Ég er að reyna að hafa upp á upplýsingum um streyturöskun-áfallastreyturöskun frá læknisfræðilegu sjónarmiði.  Vinkona mín ein varð fyrir ofbeldi og áfalli í kjölfar þess en ég sjálf er með vangaveltur vegna nýjustu rannsókna sem segja að nýrnahetturnar dæli frá sér kortisóni sem drepi innra varnarkerfið (B og T eitilfrumurnar) og um leið gefi nýrnahetturnar frá sér C-vítamín í ríku mæli.  Þetta eru nýjustu rannsóknirnar innan næringarfræðinnar. Seinni getgátunum þarf læknir eða hjúkrunarfræðingur ekki að svara þær eru ekki vísindalega staðfestar ennþá en við þeim fyrri myndi ég vilja frá læknisfræðilegt svar.  

Kveðja,

bréfritari

Svar:

Sæl,

Líkaminn býr yfir afar flóknu og fullkomnu streituvarnakerfi. Því er stýrt frá stöðvum í dýpri hlutum heilans og heilastofni. Þessar stöðvar eru í tengslum við allt miðtaugakerfið og hafa áhrif á taugaviðbrögð. Einnig eru tengsl við hormónakerfin, þá helst í heiladingli, skjaldkirtli og nýrnahettum en þær gegna mikilvægu hlutverki við streituviðbrögð. Þar fer fram framleiðsla á m.a. streituhormóninu cortisol sem stýrir margskonar viðbrögðum í líffærum og efnaskiptum líkamans. Cortisol hefur áhrif á grunnstarfssemi alls líkamans og er nauðsynlegt allri starfsemi hans en það hefur einnig áhrif á streituviðbrögð. Það hefur lengi verið þekkt að langvinn og mikil streita getur haft neikvæð áhrif á líðan og getur jafnvel verið heilsuspillandi. Svo dæmi séu tekin þekkja allir vöðvabólgur og höfuðverki eða magabólgur. En margir kannast líka við að líkaminn verst síður sýkingum á álagstímum. Þunglyndi, kvíði og áfengisvandamál eru einnig fylgifiskar streitu. Lengi hefur verið þekkt að við langvinna streitu er losun Cortisols frá nýrnahettum óeðlileg, of mikil og með óeðlilegum sveiflum í styrk og hefur það verið talið geta skýrt a.m.k sum ofannefnd einkenni. Í ljós hefur komið í nýlegum rannsóknum að við áfallastreitu, þar sem álagið er skyndilegt og ekki endilega langvinnt geta myndast mjög sérstakar truflanir á starfsemi þessara flóknu tauga- og horrmónakerfa. Þessar truflanir eru talsvert frábrugðnar þeim breytingum sem verða við langvinna streitu og geta valdið bæði tímabundnum og langvinnum andlegum og líkamlegum veikindum. Mælingar þessar eru eingöngu gerðar á sérstökum rannsóknarstofum í vísindaskyni og hafa ekki notagildi, enn sem komið er, við almennar lækningar. 

Ólafur Þór Ævarsson,

Geðlæknir, Dr.med. / Psychiatrist, M.D., Ph.D., Consultant in Mental Health