Afbrigðileg

Spurning:
Fylgir ,,afbrigðileg" blóðmynd (t.d. fjölgun hvítra blóðkorna og sökk) alltaf eitlakrabbameini? Hvað kemur eitlakrabbamein hratt fram og hversu læknanlegt er það?

Svar:
Það fylgir ekki alltaf ,,afbrigðileg" blóðmynd eitilfrumukrabbameini. Blóðmyndin getur verið eðlileg það er þá helst að blóðgildið (hgb) sé lækkað. Helstu einkenni eitilfrumukrabbameins fyrir utan eitlastækkanir eru: þreyta, slappleiki, hiti >38°, nætursviti, lystaleysi og megrun. Til eru margar mismunandi gerðir eitilfrumukrabbameina. Ein gerðin, Hodgkins sjúkdómur, sker sig nokkuð úr og er flokkuð sérstaklega. Hodgkins sjúkdómurinn er algengastur í ungu fólki, 20-30 ára og hjá þeim sem komnir eru yfir 65 ára aldur. Venja er að tala um önnur eitlfrumukrabbamein sem non Hodgkins. Vegna þess hvað eitilfrumukrabbamein eru ólík er mismunandi hvað þau eru hratt vaxandi, sum eru hægfara en önnur vaxa mjög hratt. Varðandi lækningu er heldur ekkert eitt svar þar sem þetta eru margir ólíkir sjúkdómar. Miklar framfarir hafa orðið á meðferð þessara sjúkdóma á síðustu árum og er árangurinn bestur varðandi Hodgkins sjúkdómin. Þar er 80% lifun eftir 5 ár frá greiningu. Í öðrum eitilfrumukrabbameinum er árangurinn mjög mismunandi það fer eftir því um hvaða vefjagerð er um að ræða. Hluti sjúklinganna læknast og í öðrum tilfellum má fá tímabundinn bata og/eða hægja á framgangi sjúkdómsins.

Bestu kveðjur
Dóra hjúkrunarfræðingur í Krabbameinsráðgjöfinni.