Afbrýðisöm 4 ára dama

Spurning:
Ég er í vandræðum með litla dömu sem er að verða 4 ára og var að eignast litla systur. Hún er voða góð við systur sína en alveg rosalega erfið við mömmu sína, hún er mjög óhlýðin sem hún hefur ekki verið áður og erfitt að tala við hana.
Hvað er til ráða?
Með fyrirfram þökk fyrir góða þjónustu, Amma

Svar:
Sæl.
Líklegt er að eldri stúlkunni hafi þótt það erfitt að fá minni athygli frá móður sinni eftir að litla systir hennar fæddist. Þá getur verið að móðir þeirra hafi fengið samviskubit yfir því að sinna eldri stúlkunni ekki eins mikið og hún er vön. Því reynir hún kannski að vera extra góð sem veldur því að hún tekur ekki eins fast á málunum eins og hún var vön. Best er að setja upp einfalt stjörnuprógram þannig að móðir hennar finnur ákveðna hegðun sem hún vill auka, t.d. að hlýða fyrirmælum, og henni sé síðan umbunað fyrir þá hegðun. Einnig verður að útiloka slæma hegðun og þá má nota ,,time out" t.d. með því að setja hana inn í herbergi þangað til að hún róast niður. Mikilvægt er að taka á slæmri hegðun þegar hún er að byrja og ekki fara út í of miklar útskýringar eða þrætur við barnið. Líklegt er að hegðunin versni til að byrja með eftir að byrjað er á aðgerðum en ef móðirin heldur þetta út og er samkvæm sjálfri sér þá ætti hegðunin að batna nokkuð fljótt.

Gangi ykkur vel.
Brynjar Emilsson sálfræðingur
Laugavegi 43
s:661-9068