Afbrýðisöm út í fyrrverandi eiginkonu?

Spurning:
Ég er nýgift eftir uþb. þriggja ára samband, er í samsettri fjölskyldu. Maðurinn minn á dóttur og fósturson úr fyrra sambandi og ég á tvo drengi úr fyrra sambandi. Hlutirnir hafa gerst hratt hjá okkur og stundum ekki unnið nógu vel úr erfiðleikum sem upp hafa komið hjá okkur. Ég er afbrýðisöm út í fyrrv. konuna hans, þau voru nýlega skilinn og maðurinn minn var meira að segja að reyna við hana eftir að við byrjuðum að vera saman. Mér finnst hún hafa mikil tök á honum og ég á erfitt með að sætta mig við það. Svo er dóttir hans algjört uppáhald hjá honum og hann tekur hana ofar öllu öðru. Mér finnst ég oft vera látin til hliðar. Ég var t.d. mikið veik íl sumar í lok meðgöngunnar og var komin í lífshættu svo þegar ég var komin heim og drengurinn okkar nýfæddur þá var bætt á mig álagi þrátt fyrir að ég væri ekki tilbúin í það og dóttir hans kom í 3 vikur og maðurinn minn tók ekkert frí á meðan.

Ég vil setja mörk, en vantar oft að vera nógu ákveðin og standa við það sem ég segi.

Ég á erfitt með að meðhöndla það að maðurinn minn fari í kaffi til fyrrverandi konunnar sinnar inn á hans fyrra heimili. Ég vil frekar að hann taki börnin og fari rúnt eða í heimsókn frekar en sitja í kaffi þarna. Svo finnst mér að þau ættu að gera með sér umgengnissamning. Einnig vil ég fá að vera með þegar þau hittast og eru að ræða um börnin. Hvað er réttlátt? Hvað má ég gera og hvað get ég gert? HJÁLP!!!

Kveðja Ein í vanda

Svar:
Auðvitað þarftu að læra að standa með sjálfri þér, láta vita hvað þú getur sætt þig við og hvað ekki. En á móti kemur að þú verður að sætta þig við að hann hafi samband við fyrrverandi konu sína vegna barnsins þeirra. Hvað er eðlilegt í því sambandi er svo kannski flóknara mál og hlýtur að vera mjög misjafnt. Aðalatriðið er að þú getir rætt þetta við manninn þinn, sýnir honum skilning og tillitssemi en getir þá um leið vænst skilnings og tillitssemi á móti. Kannski væri gott að fá þriðja aðila með sér í að taka á þessu þar sem um mjög tilfinningaþrungin mál er að tefla. En á meðan þér finnst á þér troðið magnast bara upp vanlíðan hjá þér sem eitrar svo sambandið við manninn. Þá má búast við meiru tillitssleysi af hans hálfu í þinn garð og upp er kominn vítahringur sem getur stigmagnast þar til allt springur. Stingdu því á kýlið sem fyrst og fáðu hjálp til þess ef þú treystir þér ekki til þess á eigin spýtur

Reynir Harðarson
sálfræðingur S: 562-8565