Afbrýðissemi systkyna

Spurning

Þannig er að við vorum að eignast son og eigum fyrir rúmlega 3 ára dóttur. Hún hefur verið nokkuð erfið síðan hann fæddist, tekið afbrýðissemisköst og gegnir engu sem sagt er við hana. Hún er gjörbreytt barn og það má segja að það hafi byrjað í lok meðgöngu. Þetta er öruggleg þekkt að systkyni verði afbrýðissöm og hefur þú ekki ráð fyrir okkur hvernig á að bregðast við þessum skapköstum hennar og hvernig á að bregðast við t.d. þegar hún reynir að klípa hann eða slá til hans.

svar

Ágætu foreldrar.
Til hamingju með soninn! Upplýsingarnar sem þið gefið eru mjög takmarkaðar svo það er erfitt að greina nákvæmlega hvað gera skal. Hegðun dótturinnar ræðst nefnilega töluvert af viðbrögðum ykkar foreldranna. Það er ágætt því þið getið breytt þeim! Ef dóttirin fellur í skuggann af litla bróður er þetta kannski nærtækasta leið hennar til að fá athygli, þótt neikvæð sé.
Ég mæli með að þið takið eftir því jákvæða sem dóttirin gerir þegar sonurinn er nálægur, jafnvel þótt það sé bara að sitja prúð eða leika sér ein og látið hana þá vita hvað þið eruð ánægð með hegðun hennar. Sýni hún bróður sínum einhvern jákvæðan áhuga eða athygli ættuð þið að hæla henni í hástert fyrir það hvað hún er dugleg og góð við litla bróðir. Hjálpið henni að nálgast bróðurinn, treystið henni til að sitja með hann og svo framvegis. Munið bara að ljóma af ánægju og stolti yfir því hvað HÚN er frábær.
Þegar dóttirin reynir að klípa eða slá til litla bróður ættuð þið að gera sem minnst úr því. Auðvitað reynið þið að koma kútnum í öruggt skjól en beinið athyglinni sem allra minnst að dótturinni. Ekki lesa yfir henni eða fordæma hana, forðist reiði og bræði. Það er nóg að sussa á hana eða segja nei, nei, ekki.
Ég vara ykkur hins vegar við því að þessi nýju viðbrögð ykkar geta haft það í för með sér að dóttirin versni um allan helming til að byrja með. En ef þið náið að fylgja þessu eftir slökknar þessi hegðun hennar smám saman, þar sem hún skilar dótturinni ekki þeim árangri sem hún vonaðist eftir. Þá er það hlýðnin. Ég bendi ykkur á svipaða leið þar. Verið sérlega áhugasöm þegar dóttirin hlýðir (ég neita að trúa að hún gegni engu) en reynið að leiða óhlýðnina hjá ykkur eftir megni. Beinið þá athygli ykkar, og dótturinnar, að einhverju öðru (t.d. hverju sem er í umhverfinu) svo senan gleymist eða týnist, helst í einhverju ánægjulegu.

Börn eru hagsýn, líkt og fullorðnir, og leggja af þá hegðun sem borgar sig ekki. Ykkar hlutverk er að sjá til þess að hún fái það sem hún þráir, líklega athygli, með jákvæðri hegðun. Litli bróðir er svo nýkominn í þennan heim að þið eruð öll að aðlagast breyttum aðstæðum.
Með tíð og tíma myndast jákvæð tengsl á milli systkinanna, sér í lagi ef þið sjáið til þess að hann sé lykill að hrósi og góðum tilfinningum fyrir stóru systur, ekki skömmum og útskúfun. Gangi ykkur allt í haginn.

Reynir Harðarson
sálfræðingur
S: 562-8565