Áfengi á meðgöngu?

Spurning:
Góðan dag!
Hvernig er með áfengi á meðgöngu, ég hef heyrt að það sé allt í lagi að fá sér rauðvín, er það í lagi? Hvað má eiginlega drekka mikið og er rauðvín betra en bjór til dæmis?

Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurninina.
Öll áfengisneysla á meðgöngu er alvarleg því það áfengi sem neytt er fer yfir fylgju og til barnsins. Líffæri barnsins eru ekki næginlega þroskuð til að brjósta áfengið niður og verður fóstrið því fyrir meiri áhrifum af áfenginu en móðirin. Ekki er vitað hve mikið áfengi er skaðlegt fyrir fóstrið né á hvaða skeiði meðgöngunnar fóstrið er í mestri hættu. Vitað er að hófdrykkja getur valdið skaða en hættan eykst í takt við aukna neyslu. Fóstrið er í hættu alla meðgönguna en skaðinn er mismunandi eftir því á hvaða þroskastigi heilinn er hverju sinni. Þekkt er að mikil áfengisneysla á meðgöngu getur haft í för með sér varanlegan skaða og ekki skiptir máli hvort verið er að drekka bjór, borðvín eða sterkari drykki þar sem vínandinn er í öllum þessum drykkjum. Það er erfitt að segja hve mikið magn veldur skaða þar sem erfitt er að rannsaka þessi mál, enginn vill taka þátt í svona rannsóknum. Ef konur eru að reyna að vera ófrískar ættu þær því ekki að drekka áfengi eða hætta því alfarið um leið og þær komast að því að þær eigi von á barni.  Miðstöð mæðraverndar hefur gefið út góðan bækling um vímuefni og meðgöngu og ráðlegg ég þér að nálgast hann, mestar af ofangreindum upplýsingum fæ ég úr honum.  Ég vona að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja
Brynja Helgadóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur