Spurning:
Ég hef verið að taka lyfið Zoloft í þónokkurn tíma og hefur það verið að virka alveg frábærlega. Mér hefur held ég bara aldrei liðið betur. Mig langar að vita hvort neyta megi áfengis með því, í hófi eða alls ekki? Og ef ekki, hvers vegna ekki?
Svar:
Venjulega er eindregið ráðið frá því að nota áfengi meðan á meðferð með geðdeyfðarlyfjum stendur. Ástæðan fyrir því er þó frekar að áfengisneysla, einkum ef hún fer úr hófi, hefur slæm áhrif á flestar tegundir þunglyndissjúkdóma, en að áfengið milliverki við lyfin. Ég get því ekki lýst því yfir hér að þér sé óhætt að neyta áfengis meðan þú ert að nota Zoloft. Ég ráðlegg þér hins vegar að ræða það við lækninn þinn, því hann þekkir ástand þitt og aðstæður og getur því betur dæmt um hvað þér er óhætt eða ekki.
Finnbogi Rútur Hálfdanarson
lyfjafræðingur