Æfingar fyrir neðri maga og slöpp brjóst

Spurning:

Sæl.

Ég er byrjuð að æfa líkamsrækt 3-4 sinnum í viku og sé árangur nema á neðri maga. Geturðu bent mér á einhverjar góðar æfingar sem geta minnkað hann.

Mig langar líka að spyrja þig hvaða æfingar ég get gert til að lyfta brjóstunum upp um nokkra sentimetra eftir brjóstagjöf í 18 mán.

Með fyrirfram þökk,
Ein örvæntingarfull

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Að fjarlægja fitu af einum ákveðnum stað á líkamanum er ekki hægt vegna þess að fitan, hvar sem hún er á líkamanum, tilheyrir öllum líkamanum, ekki aðeins vöðvunum á einu svæði. Fita er hluti af hitaeiningabankanum þínum, þar sem þú tekur út þegar þú æfir þolþjálfun.

Það er auðvelt að skilja hvers vegna fólk vill trúa því að hægt sé að fjarlægja fitu af ákveðnum stað á líkamanum, vöðva er jú hægt að byggja upp á vissum hlutum líkamans. En fita er ekki þannig; fita er eins og blóðið. Ef þú skerð þig á úlnlið, þá kemur ekki úlnliðsblóð, það kemur blóð. Fitan á lærunum er ekki lærfita, bara fita. Fitan á lærunum tilheyrir ekki lærunum. Eins og blóðið hreyfist fitan inn og út af svæðum svo hún sé til staðar fyrir þolþjálfun . Þegar þú æfir þolþjálfun, t.d. skokkarar, segir fóturinn þinn ekki „sendið mér fótleggja-fitu“. Hann segir bara sendið mér fitu, einhvers konar fitu.

Fitu er ekki hægt að nudda af. Það er ekki hægt að bræða hana af. Eina leiðin til að losna við fitu er að stunda þolþjálfun. Hreyfðu þig því reglulega 4-5x í viku í 20-40 mín í senn (skokka, ganga rösklega, hjóla, fara í þolfimitíma) og svo er einnig mikilvægt að stunda alhliða styrktarþjálfun þ.e. styrkja alla helstu vöðvahópa líkamans. Svo eru neysluvenjurnar stór þáttur líka, gæta hófs í neyslu og minnkaðu neyslu á fitu- og sykurríkum mat.

Varðandi brjóstin þá er það nú þannig að þyngdarlögmálið gildir og brjóstin eiga það til að síga með aldrinum og eftir barneignir. En með því að styrkja brjóstvöðvana geturðu bætt ástandið að einhverju leyti og svo sting ég bara upp á því að þú fáir þér „push-up“ brjóstahaldara og verðir bara glöð með brjóstin þín sem hafa sinnt mikilvægu hlutverki. Það eru afskaplega fáar konur sem halda sínum stinnu brjóstum eftir að hafa haft barn á brjósti. Og hver segir svo að það eigi að vera þannig? Vinnandi brjóst eru bara sjarmerandi á sinn hátt ….ekki satt?

Kveðja,
Ágústa Johnson, Líkamsræktarþjálfari