Afleiðingar kattaklórs?

Spurning:

Fékk rispu eftir smá klór frá 4 mánaða ketti – heimilisketti – og var rispan á ofanverðum framhandlegg – innanverðum – fékk í kjölfarið gríðarlega stóran marblett sem hefur hangið á mér í nær 10 daga – en er að dofna.

Finn fyrir litlum hnúð undir honum en ekki stórum – svona um það bil sentimetra í þvermál. Finn ekkert fyrir þessu nema þrýst sé á hann.

Hvað gæti valdið þessu?

Svar:

Takk fyrir fyrirspurnina. Úr þessu er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af rispunni eftir köttinn, en það sem helst er að hafa áhyggjur af eftir kattaklór er að það komist sýking í sárið. Marbletturinn stafar af því að æð hefur sprungið og blóð seytlað inn í vefina. Það tekur dálítinn tíma fyrir líkamann að losa sig við þetta blóð úr vefjunum og ekkert óeðlilegt við að marbletturinn sé enn eftir 10 daga. Hnúðurinn er að öllum líkindum bólgusvörun sem er merki um að viðgerð eigi sér stað á vefjum og hverfur einnig með tímanum. Vona að þetta svari spurningu þinni.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir