Áhrif súrra drykkja á glerung

Spurning:

Sæll Ólafur.

Ég á tvær stelpur 5 og 12 ára. Þær drekka ekki gosdrykki en drekka þá djús/safa eða vatn í staðinn. Sú yngri drekkur mjólk en ekki sú eldri, ekki síðan hún var u.þ.b. 5 ára, lenti á slæmri mjólk og hefur ekki bragðað hana síðan. Hún borðar ekki ost eða annan mjólkurmat sem er ekki búið að bragðbæta með einhverju sætu. Spurningin er: hvernig fer þetta með tennurnar, þ.e. lítil sem engin mjólkurneysla og súru drykkirnir? Á ég að gefa henni kalktöflur?

Með kveðju.

Svar:

Ef súrir drykkir eru að mestu komnir í stað mjólkur og vatns hjá dætrum þínum er hætt við að glerungur tannanna þynnist jafnt og þétt og tennurnar verði viðkvæmar og aumar. Tannlækningakostnaður gæti orðið ykkur þungur baggi þegar þær eldast. Kalktöflur koma að litlu gagni. Það eina sem dugar er að snúa dæminu við – mjólk og vatn í stað súrra drykkja.

Ólafur Höskuldsson, sérfræðingur í barnatannlækningum