Áhrif sykursýki á ungling?

Spurning:
Hversu mikil áhrif hefur insúlínháð sykursýki á ungling?
Er þessi aldur eitthvað erfiðari heldur en annar?
Hefur sykursýkin meiri áhrif á efnaskiptin og hormónana hjá sykursjúkum unglingi heldur en hjá unglingi sem ekki er með sykursýki?

Svar:

Í stuttu máli sagt, já sykursýkin er erfiðari á unglingsaldri en annars. Insúlín er hormón, alveg eins og adrenalín, kynhormón og mörg önnur. Öll starfsemi hormónakerfisins fer hamförum á kynþroskaskeiðinu og þar með sykurjafnvægið. Sökum mikillar virkni hormónakerfisins og þess hversu stór og snögg stökk verða í vexti og þroska getur insúlínþörf sveiflast mjög mikið á þessu aldursskeiði. Lyfjaskömmtum getur þurft að breyta oft og mikið í einu og með litlum eða engum fyrirvara. Algengt er að insúlínþörfin tvöfaldist um tíma en falli svo aftur í svipað horf og var fyrir kynþroska. Þess vegna er hætta á miklum sveiflum í blóðsykri, bæði miklum hækkunum og líka slæmum sykurföllum. Við þetta bætist svo félagslega hliðin, sem oft getur verið nógu erfið fyrir unglinga þó þeir séu ekki í þokkabót með ólæknandi sjúkdóm sem gerir þá öðruvísi en alla hina. Það getur verið þreytandi þegar maður er 14-15 ára að mega aldrei gleyma því að maður er með sykursýki auk þess sem mörgum þykir vandræðalegt að lenda í því að fá sykurfall innan um annað fólk, en þá álykta margir að viðkomandi sé ósjálfbjarga af neyslu áfengis eða annarra vímuefna, stundum hafa þau jafnvel endað á lögreglustöð vegna þessa. Margir unglingar ákveða á einhverjum tímapunkti að nenna ekki lengur að vera sykursjúkir, hætta að passa upp á sig og fara að gefa sér of lítið insúlín eða jafnvel hætta því alveg, en það er að sjálfsögðu stórhættulegt. Unglingsstúlkur með sykursýki eru í aukinni áhættu gagnvart átröskunum, þær vita sennilega ,,of mikið" um næringarbúskap líkamans og sykursjúkir unglingar eru einnig í aukinni áhættu gagnvart þunglyndi og því nauðsynlegt að foreldrar og aðrir aðstandendur hafi augun opin. En langflest komast þau stóráfallalaust í gegnum þennan tíma með stuðningi fjölskyldu og vina, og í raun ekkert að gera annað en að anda rólega vitandi það að þetta tímabil gengur yfir.
Gangi ykkur vel.

Bestu kveðjur,

Fríða Bragadóttir, varaformaður Samtaka Sykursjúkra, móðir sykursjúks unglings.