Áhugalaus um kynlíf eftir barnsmissi

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er að vona að þú getir hjálpað mér. Ég er 27 ára gömul og hef engan áhuga á kynlífi. Ég er í sambúð með yndislegum manni og erum við búin að vera saman í 10 ár. Við erum búin að eiga þrjú börn saman, en urðum fyrir þeirri lífsreynslu að missa það fyrsta. Þetta áhugaleysi hjá mér byrjaði rétt eftir að það fæddist, árið 1993. Þetta angrar mig rosalega mikið, en málið er að ég hef aldrei getað talað um þetta við neinn, og þar af leiðandi aldrei fengið svör, hvað sé hægt að gera. Sem betur fer á ég skilningsríkan mann. En ég veit að hann er orðinn ansi leiður á þessu. Kæra Dagný, ég er ráðalaus, og ég vona innilega að þú getir hjálpað.

Kærar kveðjur.

Svar:

Sæl.

Það er greinilegt að barnsmissirinn hefur haft mikil og djúpstæð áhrif á þig. Mér finnst þó ólíklegt að hann einn og sér sé ástæðan fyrir áhugaleysi þínu á kynlífi, þótt það hafi byrjað skömmu síðar, því þú átt jú tvö börn eftir það. Mér fyndist skynsamlegast hjá þér að ræða við sálfræðing um þetta og að þið hjónin fáið ráðgjöf saman. Þetta er allt of flókið og stórtækt vandamál til að hægt sé að leysa það í gegn um netið. Vertu ekkert að hika – pantaðu þér tíma strax í dag. Því lengur sem þetta dregst því stærri verður vandinn.

Gangi ykkur allt í haginn.
Dagný Zoega, ljósmóðir