Spurning:
Ég hef áhyggjur af dóttur minni vegna þess hversu lítið hún þyngist og er oft óánægð. Hún er fædd 3800 gr. en er nú rúmlega 7 mánaða 6300 gr. Hún hefur þyngst jafnt og þétt, en þó svo hægt að nú er hún komin niður við brotalínu á kúrfunni. Hún hefur verið frekar óvær frá fæðingu, oft verið stífluð í nefi og fengið í eyrun. Hún er samt mjög spræk og ekki sein til. Hún er oft ör og erfitt að svæfa hana, nema úti í vagni. Ég hætti með hana á brjósti 6 mánaða því ég hélt hún færi kannski að þyngjast meira á pela, en það virðist ekki ætla að verða. Hún er frekar léleg að borða, en ég reyni að gefa henni grauta, ávaxtamauk og ýmislegt annað. Mér er sagt að hafa ekki áhyggjur af þessu þegar ég fer með hana í skoðun og vigtun, en mig langar að fá álit hjá fleirum. Hvað ráðleggið þið?
Svar:
Áhyggjur þínar eru skiljanlegar þar sem þyngdaraukning barna segir nokkuð til um almenna líðan þeirra. Þó geta börn verið frísk og spræk þótt þau þyngist tæplega nóg. En úr því dóttir þín virðist ekki heldur vera neitt sérstaklega ánægð með tilveruna fyndist mér rétt að skoða líðan hennar í víðara samhengi. Þú ert væntanlega búin að láta barnalækni skoða stúlkuna og það er búið að útiloka aðrar sýkingar eins og þvagfærasýkingu? Allur lasleiki hægir á vexti og sýkingarnar hennar spila sjálfsagt inn í hægan vöxt. Hún þarf orkumikinn mat til að auka vöxtinn og því skaltu passa að hún fái fitu með matnum – bæta jafnvel við matskeið af soyjaolíu eða smjöri í matinn hennar. En þótt hún þurfi orku skaltu ekki fara að bæta við sykri – það er erfitt að venja börn af sætubragði og sykur er slæmur fyrir heilsuna. Bjóddu henni oft að borða og lofaðu henni að sitja til borðs með fjölskyldunni. Hún getur enn sem komið er ekki borðað allar fæðutegundir og það er möguleiki að ef of hratt er farið í fæðugjöf myndi hún ofnæmi. Einnig er mögulegt að slæleg þyngdaraukning endurspegli fæðuóþol.
Hvað sem öllu líður skaltu láta fylgjast vel með stúlkunni og gjarnan fara með hana til barnalæknis til nánari greiningar.
Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir