Áhyggjur af berklasmiti

Spurning:

Sæl.

Við hjónin vorum að flytja með dóttur okkar til Vestur-Evrópu og erum búin að vera hér í mánuð. Fyrirhugað er að dvelja hér næstu árin. Áður en við lögðum af stað hingað spurðum við á tveimur heilsugæslustöðvum hvort dóttir okkar, sem er nýorðin ársgömul, þyrfti að fara í einhverjar aukasprautur eða bólusetningar áður en við fluttum.

Svarið var á báðum stöðum hreint: Nei. Nú er svo komið fyrir okkur að barnið kemst ekki á leikskóla hér né dagheimili nema vera sprautuð gegn berklum og er þetta mjög leiðinlegt þar sem við reyndum að hafa varann á.
Þetta væri kannski ekki svo mikið mál nema því aðeins að nú hafa greinst berklasmitaðir einstaklingar í skóla hér sem mikið af Íslendingunum sækja og eitt 10 mánaða barn hér er mikið veikt og dóttir okkar er komin með það sem við teljum vera berkjubólgu (skv. greiningu á vefnum ykkar og bókinni Móðir og Barn).
Við höfum áhyggjur af því að hún geti verið berklasmituð. Því miður reynast ekki vera neinar upplýsingar um berklasjúkdóminn á vefnum ykkar undir: sjúkdómar, þannig að ég spyr: Hvernig getum við greint hvort barnið okkar er smitað berklum eða ekki. Hún fór í monotest á heilsugæslu hér á fimmtudaginn en hún hefur leikið mikið við barnið sem nú hefur greinst mikið veikt og reyndar hefur það barn farið tvisvar í monotest en þau bæði sýnt niðurstöður sem ekki hefur verið hægt að styðjast við (ég skil það að vísu ekki alveg og veit ekki hvernig þessi monotest virka). Við höfum áhyggjur. Okkur finnst íslenska kerfið hafa brugðist okkur því það er skelfileg staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Gætir þú svarað okkur sem fyrst og þá látið okkur vita helstu staðreyndir um sjúkdóminn. Við skiljum því miður ekki enn tungumálið þannig að það setur okkur í enn verri stöðu hér.

Svar:

Berklar smitast svo til einungis frá fullorðnum sjúklingum með lungnaberkla. Börn eru mjög sjaldan smitandi, því yngri því minni líkur á að þau smiti og ung börn smita nánast aldrei. Þetta er vegna þess að börn fá aðra sjúkdómsmynd en fullorðnir. Berklar í börnum eru yfirleitt vægur og auðlæknanlegur sjúkdómur, ef frá eru talin tilfelli af berklaheilahimnubólgu sem er alvarlegur sjúkdómur og getur skilið eftir varanleg merki og svo sáningarberklar sem geta verið mjög bráður sjúkdómur og oft banvænn án meðferðar.

Þannig þurfið þið ekki að hafa áhyggjur af því að dóttir ykkar hafi smitast af tíu mánaða gömlu barni. Hins vegar þyrfti að athuga hver smitaði litla barnið og hafi dóttur ykkar umgengist þann sjúkling, sem sennilega er fullorðinn, þá gæti dóttur ykkar hafa smitast. Til að staðfesta berklasmit er best að framkvæma svokallað Mantoux húðpróf (líka kallað PPD) sem felst í því að sprauta efni undir húð á framhandlegg. Jákvæð svörun kemur fram innan eins til tveggja sólarhringa og svörunin er venjulega lesin af á öðrum til þriðja degi frá því að prófið er framkvæmt. Prófið er skaðlaust en það er sárt á meðan sprautað er og það er ástæðan fyrir því að Monoprófið er stundum notað á ungbörn. Sjálf nota ég eingöngu Mantoux próf þó svo að um lítil börn sé að ræða – þótt það sé sárt þá tekur það fljótt af. Berklapróf verður ekki jákvætt um leið og smit verður, það geta liðið nokkrar vikur þar til húðpróf verður jákvætt. Jákvætt húðpróf í íslensku barni með einkenni um berkla og merki um berklasmit eða sjúkdóm á lungnamynd styrkir greiningu berkla og gefur tilefni til meðferðar. Berklameðferð er ávallt með 3-4 lyfjum samtímis til að byrja með (fjöllyfjameðferð). Sé einungis um smit að ræða án sjúkdómseinkenna eða merkja um sjúkdóm, má veita fyrirbyggjandi meðferð með einu lyfi í 6-12 mánuði. Fyrirbyggjandi meðferð minnkar líkurnar á því að smitað barn veikist af berklum.

Berklabólusetning er svokölluð BCG bólusetning (Bacille Calmette Guerin) og ég er ansi hrædd um að þetta sé ennþá skyldubólusetning í landinu sem þið dveljið í (samkvæmt upplýsingum sem ég fékk hjá kollega mínum þar í dag). BCG bólusetning hefur aldrei verið skylda á Íslandi og í dag er engin ástæða til að bólusetja börn eða fólk á Íslandi gegn berklum. Hvort ástæða er til að bólusetja öll börn þar ytra er álitamál, en sé bólusetningar krafist af heilbrigðisyfirvöldum er erfitt að komast hjá henni. Bólusetningin er ekki 100% vörn gegn berklasmiti eða berklum. Bólusetningin hefur sýnt sig að vera mismunandi góð vörn í hinum ýmsu löndum allt frá því að vera gagnslaus og upp í að veita 80% vörn gegn lungnaberklum. Hins vegar hafa rannsóknir sýnt að bólusetningin veitir vörn gegn alvarlegri formum sjúkdómsins (sem ég nefndi hér að ofan) í börnum undir fimm ára aldri og það er ástæðan fyrir að bólusett er í löndum þar sem hætta á berklsmiti er mikil. Gallinn við BCG bólusetningu er að hún leiðir yfirleitt til þess að berklahúðprófið verður jákvætt, sem veldur því að ekki er hægt að notast við húðprófið til að greina smit.

Helsta smithættan í Vestur Evrópu er frá innflytjendum, þó vissulega séu ekki allir berklasj
úklingar í Vestur Evrópu innflytjendur. Það er mögulegt að upp komi berklatilfelli meðal fullorðinna starfsmanna í skólum og á dagheimilum (hvort sem þeir eru innflytjendur eða ekki) auk þess sem börn innflytjenda ganga í skóla og eru á dagheimilum og því er hugsanlegt að það geti orðið samgangur við smitandi berklasjúkling á þessum stöðum, þegar börn eru sótt í skólann, o.s.frv. Ef hægt er að sýna fram á að mörg börn smitast í skóla eða á dagheimili er það merki um að þar hafi komið við sögu smitandi berklasjúklingur.

Mér finnst langlíklegast að dóttir ykkar hafi einkenni (berkjubólgu?) sem ekki hefur neitt með berklasmit að gera. En ómögulegt er fyrir mig að segja til um það með vissu í þessari fjarlægð. Þið ættuð að leita til læknis ef stúlkan er ennþá veik og fá úr því skorið hvort hún sé berklasmituð (sem er ólíklegt). Mér sýnist að það sé erfitt fyrir ykkur annað en að beygja ykkur undir vilja heilbrigðisyfirvalda í landinu sem þið dveljið í og láta bólusetja dóttur ykkar ef hún er neikvæð á húðprófi. Bólusetning þessi er ekki eins einföld og aðrar barnabólusetningar því það myndast sár sem vessar úr í allt upp í nokkrar vikur, og svo verður varanlegt lítið ör eftir. Í einstöku tilfelli fylgir eitlabólga bólusetningunni.

Vona að þetta svari spurningum ykkar.
Kærar kveðjur,
Þuríður Árnadóttir, læknir.