Áhyggjur af háum púls og fleiru?

Spurning:
Góðan daginn.
Ég er 45 ára gömul og hef átt við blóðþrýstingsvandamál að stríða en með lyfjum held ég mér góðri. Ég hef hins vegar áhyggjur af púlsinum sem er svo hár og er búinn að vera það í mörg ár. Ég var send til hjartalæknis fyrir rúmu ári síðan því mamma var með kransæðavandamál og einnig var búið að skipta um hjartalokur í henni en hún var bæði lítil og grönn og hreyfði sig mjög mikið þannig að þetta var mjög sennilega ættarsaga. Pabbi dó úr blóðtappa sem enginn vissi að væri vandamál, en því miður eins og oft áður var ég ekki í vinsældahóp þessa læknis og hann leit á skýrslur mínar og hlustaði mig og sagði að ekkert amaði að mér.
Því miður hef ég verið öryrki í 10 ár vegna bakveikinda, þannig að staðan í dag hjá mér er sú að ég er öryrki með spengt bak, og er að mana mig í spengingu framan frá, of háan blóðþrýsting (er á lyfjum) og púlsinn í botni, ég fékk tak fyrir brjóstið fyrir þremur mánuðum, mjög slæmt, ég og maðurinn minn höldum að það hafi verið blóðtappi og hef ég verið eins og slytti síðan, en ég nenni ekki til læknis þar sem ég fæ sama svarið að þetta lagist. Blóðþrýstingurinn var í morgun þegar ég vaknaði 116-62 og púls 116, ég er 74 kg., 163 á hæð, get ekki stundað þjálfum vegna bakveiki, get séð um dagleg verk á heimili og sjálfa mig. Ekki segja mér að fara til heimilislæknis, hvað á ég að gera?  
Kveðja og von um einhver svör

Svar:
Sæl.
Ef þú hefur hraðan púls getur verið gott að mæla skjaldkirtilshormón. Þar sem þú ert á blóðþrýstingslyfjum getur verið að hægt sé að stilla lyfin þannig að þú fáir s.k. beta blokkera sem lækka púlsinn. Þessi púls er þó ekki merki um sjúkdóm og í lagi. Hjartalæknirinn hefur ekki séð merki um hjartalokusjúkdóm svo ekki hafa áhyggjur af því. Blóðþrýstingur er í fínu lagi á meðferðinni. Ef þú hefur fengið blótappa í hjartað sést það yfirleitt á hjartariti. Hjartarit, heppileg blóðþrýstingsmeðferð og skjaldkirtilshormónamælingu er best að fá á heilsugæslustöðinni þinni.

Bolli Þórsson, Innkirtlasérfræðingur
Hjartavernd.