Akureyrar veikin sem gekk 1948 til 1952 ca.

Er eitthvað vitað um afleiðingar sjúgdómsins hja fólki sem tfékk þessa veiki hafa komið fram einhver eftirköst

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Það lifðu allir Akureyrarveikina af en aðeins 15% þeirra sem veiktust náðu fullum bata og tók það mjög langan tíma eða jafnvel allt að tveimur árum. Um 60% þeirra sem veikina fengu náðu allgóðum bata utan þess að búa við skert úthald eða óeðlilega mikla þreytu og létu þessir einstaklingar ástandið ekki hafa mikil áhrif á lífshlaup sitt þótt vissulega hafi þreytan raskað lífsgæðum eða jafnvel áætlunum að einhverju marki.

En 25% þeirra sem Akureyraveikina fengu náðu ekki góðum bata, heldur hafa þeir búið við mikla þreytu og flestir þróað með sér vefjagigt sem svo hefur aukið á þreytuna. Lífsgæði þessa fólks skertust verulega sökum veikindanna og hefur það orðið að sníða lífsáætlanir sínar og lífsháttu eftir þreytuástandinu.

Einkenni frá taugakerfi áttu það til að blossa upp ef fólk fékk hitapestir síðar á ævinni en þau einkenni voru ekki viðvarandi eins og þreytan sem var erfiðast að eiga við.

Gangi þér/ykkur vel.

með kveðju,

Thelma Kristjánsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.