Aldrei upplifað eðlilega brjóstagjöf

Spurning:
Ég er búin að eignast 3 börn og þó meðgöngurnar hafi verið misjafnar og fæðingarnar líka hefur brjóstagjöfin alltaf verið eins. Í öll skiptin fékk ég sveppasýkingu í geirvörturnar en var þó ekki greind fyrr en með þriðja barn, og voru kvalirnar við gjöf svo rosalegar að frekar hefði ég kosið að ganga í gegnum fleiri fæðingar. En það versta er þó að ég hef ekki getað verið með börnin mín á brjósti lengur en mánuð. Þrátt fyrir kvalirnar hef ég harkað af mér og látið mig hafa það grenjandi að gefa börnum mínum brjóst, en eftir mánuð er öll mjólk búin og barnið komið á pela. Ég veit þú veltir því fyrir þér hvort ekki sé möguleiki á því að kvalirnar hafi hvatt mig til að gefa börnunum frekar pela og þannig hafi ég leyft mjólkinni að klárast smátt og smátt. Kannski með fyrsta barnið, því ég var allveg óreynd og vissi ekkert.

En mér fannst ég hafa misst af svo miklu í fyrsta skiptið að hafa ekki getað verið með barnið á brjósti að ég var allveg ákveðin í annað sinn. Enn allt kom fyrir ekki, mjólkin hvarf og ég kenndi sjálfri mér um, að ég hefði ekki verið nógu dugleg að hvetja barnið til að drekka meira til að örva mjólkurmyndun. Í þriðja sinn var ég ákveðin sem aldrei fyrr, fannst það ekki koma til greina að eiga þrjú börn og hafa aldrei upplifað eðlilega brjóstagjöf. Það var því eins og himnasending fyrir mig þegar ljósmóðirin greindi mig á fyrstu vikunni með sveppasýkingu (einkennin voru þau sömu og í hin skiptin þannig að ég varð svolítið reið útí hinar ljósmæðurnar fyrir að hafa ekki uppgötvað þetta líka á sínum tíma, en ég fyrirgaf þeim þó fyrir rest!!)og lét mig hafa lyf sem léttu á sársaukanum þannig að ég gat farið að njóta þessara samverustunda með barninu mínu. En áður en mánuður var liðinn var barnið komið á pela því það var sama hvað ég reyndi og hversu miklum tíma ég eyddi, barnið grét stanslaust því það var alltaf svangt, ég mjólkaði ekki nóg. Mig langar að eignast fleiri börn en mig langar líka til að upplifa eðlilega brjóstagjöf.

Hvað á ég að gera næst? Ekki segja mér að drekka vatn, vera róleg, liggja fyrir, ekki láta mér verða kalt á höndum og brjóstum, o.sv.frvs. Ég veit þetta allt saman. ÞAÐ ER EITTHVAÐ AÐ MÉR!!

Svar:
Það var gott að þú fékkst meðferð við sveppasýkingunni og gast notið brjóstagjafarinnar þann stutta tíma sem hún varði. En það er einstaka kona sem ekki nær að mjólka barni sínu nóg – þrátt fyrir góðan vilja og öll heimsins góðu ráð. Sogtækni barnsins hefur einnig mikið að segja um það hvernig brjóstagjöfin gengur – lint sog og latt barn örvar stundum ekki nóg til að mjólkurmyndun haldist nægileg. Þurfi barnið ábót getur tæknin sem notuð er við ábótargjöfina haft áhrif á það hvort og hversu hratt barnið fer eingöngu á pela. Prófaðir þú t.a.m. hjálparbrjóstið? Hversu langur tími líður milli gjafa og einnig hversu mikil ábót er gefin skiptir einnig máli – þ.e. lengri tími og meiri ábót leiðir af sér minni mjólk. Svo hefur allt umhverfi og stuðningur kringum mann mikið að segja sem og trúin á að þetta gangi.

Eignist þú fleiri börn ættir þú að byrja undirbúning fljótlega á meðgöngunni og vil ég benda þér á búðina Móðurást sem sérhæfir sig í öllu er tengist brjóstagjöf. Þar er meira að segja starfandi brjóstagjafarráðgjafi sem veitir einkaviðtöl.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir