Spurning:
Ég er komin rétt rúma sex mánuði á leið með mitt fyrsta barn og hef átt við smá (er reyndar frekar mikið suma dagana) útferð að stríða. Mér langaði bara að vita þar sem að ég hef aldrei getað notað dömubindi/innlegg hvort að það megi nota álfabikarinn þegar maður er óléttur til að taka við þessu í stað innleggs ?
Svar:
Ég tel ekki æskilegt að ganga með nokkurn hlut í leggöngum á meðgöngu – það getur valdið ertingu á leghálsinn og leitt til þess að hann fer að opnast fyrir tíman. Ef útferðin er svo mikil að þú þurfir álfabikarinn undir hana þá er um óeðlilega mikla útferð að ræða. Þá þarft þú að láta lækni í mæðravernd meta hvað sé um að vera og meðhöndla þig. Sé hins vegar um lítilsháttar útferð að ræða og þú þolir illa buxnainnlegg getur þú saumað þér innlegg úr flónneli eða frottéefni. Þau anda og valda ekki ofnæmi. Þú getur líka spurst fyrir í versluninni Móðurást eða Þumalínu – þar er möguleiki að fáist margnota dömuinnlegg.
Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir