Álit sérfræðings á heilsudrykk?

Spurning:
Mig langar svo að vita skoðun sérfræðings á heilsudrykk frá Aloe vera (framleiddur af Forever Living Products – heimasíða www.aloevera.is). Svona er lýsingin á drykknum á heimsíðunni: Aloe Vera Gel drykkurinn er hrásafi unninn úr safa Aloe Vera Barbadensis Miller plöntunnar og er án efa einn fullkomnasti næringardrykkur náttúrunnar, hann inniheldur yfir 75 tegundir næringarefna: vítamín, steinefni, amínósýrur, ensím og jafnvel B – 12 vítamín sem sjaldan finnst í jurtum. Það sem mig langar svo að vita er hvort það er í lagi að gefa tveggja og hálfs árs gömlu barni eina matskeið af þessum safa á dag (fullorðnir eiga að taka 2 til 3 cl). Þá er ég að hugsa um það sem lið í fyrirbyggjandi aðgerðum við t.d. kvefi og öðrum umgangspestum. Mér hefur verið ráðlagt það af manneskju sem neytir safans en ég myndi gjarnan vilja fá "hlutlausa" skoðun á því áður en ég tek ákvörðun um hvað ég geri. Annað: ef ég myndi gefa barninu mínu þennan safa mætti ég þá líka gefa því lýsi eða ætti ég að hætta því?
Með kærri þökk,

Svar:

Komdu sæl.

Já, máttur Aloe Vera afurðanna er mikill ef marka má hástemmdar yfirlýsingar á síðunni www.aloevera.is . Ég veit að í Aloe Vera plöntunni leynast ýmis hollustu- og næringarefni en fullyrðingar um lækningamátt afurðar hennar eru að mínu viti all glannalegar og byggja ekki á traustum vísindum. En á vefsíðunni má m.a. lesa eftirfarandi:

“Aloe Vera Gel drykkurinn hefur bólgueyðandi eiginleika frá náttúrunnar hendi og hefur hjálpað þeim sem þjást af ennis og nefholubólgum, liðagigt, sinabólgu, ristilbólgum o.s.frv. Hann gagnast við húð og meltingarvandamálum, s.s. exemi, sóríasis, húðvandamálum, bólum, ristilertingu, opnum sárum, harðlífi, brjóstsviða og mörgu öðru.”

Ég hef ekki fundið neinar sannanir fyrir þessum fullyrðingum og gerði ég þó tilraun til að finna rannsóknir sem styddu þessar fullyrðingar með því að leita inn á “ítarefni” vefsíðunnar. Hvað varðar að gefa barninu þínu eina matskeið af aloe vera safanum á dag þá tel ég ólíklegt að það myndi hafa neikvæð áhrif á heilsufar þess. Engu að síður er það mín skoðun að lýsið ætti að nægja en umfram allt skaltu vera dugleg að bjóða barni þínu upp á fjölbreytt fæði og gleyma ekki ávöxtunum og grænmetinu sem er jú sprengfullt af margskonar fjörefnum!

Ég vil í lokin nota tækifærið og hvetja þá sem hafa lesið þessa klausu og telja sig hafa í fórum sínum góðar vísindagreinar sem styðja hástemmdar fullyrðingar um lækningarmátt afurðarinnar að senda mér upplýsingar þar að lútandi á póstfang mitt: oli(at)hreyfing.is.

 

Með kveðju, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur