Amilín, Nobligan og Vioxx

Spurning:

Sæll Jón Pétur.

Ég var að skoða lyfjaskrána hjá ykkur og varð mjög hissa þegar ég las upplýsingarnar um lyfið Amilín. Því er lýst sem þunglyndislyfi. En mér er ávísað því sem lyfi gegn gigt. Ég á að taka það samhliða Nobligan 50 mg og Vioxx 25mg.

Getur verið að læknirinn minn sé að ávísa á rangt lyf? Vinsamlegast sendu mér póst ef þú sérð eitthvað athugavert við þetta.

Svar:

Amilín er lyf við geðdeyfð af ýmsum toga, þar á meðal þunglyndi. Nobligan er verkjalyf og Vioxx er lyf við slitgigt. Meðferð slitgigtar (og annarrar gigtar) getur verið margslungin og oft eru gefin önnur lyf með gigtarlyfjunum. Algengt er að verkir og bólgur séu miklar og þá eru verkja- og bólgustillandi lyf gefin líka. Það getur líka verið mikið áfall að fá erfiða sjúkdóma, í þeim tilfellum er eðlilegt að meðhöndla sjúklinginn með viðeigandi geðdeyfðarlyfi. Það er mjög ósennilegt að lyfjagjöfin sé röng en best er að ræða lyfjagjöfina við lækninn og láta hann útskýra lyfjagjöfina persónulega.

Kær kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur