Amitriptylin og Fluoxetin

Fyrirspurn:

Er í lagi að taka amitriptýlín og fluoxetin saman?

25 mg amitriptýlín fyrir nóttina vegna svefntruflana og 20 mg fluoxetin að morgni vegna geðdeyfðar?

Svar:

Sæl,

Lyfin Amitriptylin og Fluoxetin eru bæði í flokki þunglyndislyfja (antidepressiva).
Amilin er í flokki ósérhæfðra monoamin endurupptöku hemla og fluoxetin í flokki sérhæfðra serotonin endurupptöku hemla.
Lyfin hafa áhrif á hvert annað.   Amilin er eldra en Fluoxetin sem hefur sérhæfðari verkun.  Fluoxetin hefur langan helmingunartíma, lyfið sjálft og niðurbrots efni þess hafa áhrif í líkamanum lengi.
Amilinið hefur róandi verkun og því oft gefið fyrir svefn.   Fluoxetin getur aukið blóðþéttni amilins, það verður samkeppni um niðurbrot lyfjanna í lifur. Aukaverkanir gætu komið fram eins og munnþurrkur, róandi áhrif, þvagtregða og einkenni frá hjarta og æðakerfi.
Í þessum skömmtum ætti að vera í lagi að taka lyfin saman.  Reynslan hefur verið ágæt hvað það varðar,  mjög persónubundið er hvað hentar hverjum og einum, mikilvægt er að ráðfæra sig við lækni um notkun lyfjanna og skammtastærðir.

Með kveðju,
Sigríður P. Arnardóttir
Lyfjafræðingur