Spurning:
Sæl Sólveig.
Þrátt fyrir að ég bursti tennur mínar daglega þá kvartar maðurinn minn stöðugt yfir slæmri andremmu.
Hvað orsakar andremmu og hvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir hana? Þetta er farið að há mér í daglegum samskiptum við annað fólk, því ég hugsa stanslaust um hvort ég lykti af andremmu.
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Flest allir þjást af andremmu af og til og talið er að allt að 25% fullorðinna þjáist daglega af andremmu. Algengast er að andremma orsakist af bakteríum í munni en þær brjóta niður þær matarleifar sem eftir verða í munninum að máltíð lokinni og þá myndast ilallyktandi gufur. Ýmsar fleiri ástæður geta þó verið fyrir andremmu. Hér á eftir koma þær helstu en listinn er þó engann veginn tæmandi.
Matur:
Þegar við borðum verða eftir leifar af matnum í kringum tennur og þegar bakteríur sem tilheyra eðlilegri munnflóru taka að brjóta niður þessar matarleifar myndast illa lyktandi gufur. Einnig getur neysla ýmissa matvæla valdið slæmri lykt s.s. laukur, hvítlaukur og ýmsar kryddtegundir. Það vegna þess að þegar þessi efni eru brotin niður í meltingarveginum frásogast þau inn í blóðrásina og við öndum lyktinni út um lungu.
Léleg munnhirða/tannhirða:
Mjög mikilvægt er að bursta tennur vandlega eftir hverja máltíð og nota tannþráð daglega til að koma í veg fyrir andremmu. Ef tennur eru ekki þrifnar reglulega safnast bakteríuskán á þær sem geta valdið tannholdsbólgum sem auka andremmu. Einnig þarf að bursta tunguna daglega og nota munnskol.
Þurkur í munni:
Munnvatnið hjálpar til við að halda munni og tönnum hreinum. Ef framleiðsla á munnvatni minnkar eiga bakteríur auðveldar með að safnast fyrir í munninum og valda andremmu. Þetta sjáum við vel á morgnanna en eðlilegt er að munnurinn þorni yfir nóttina og flestir vakna á morgnanna með andremmu sem hverfur að loknum morgunmat og tannburstun. Reykingar þurrka munninn og þannig eykst andremma sem verður við tóbaksnotkun. Þeir sem reykja þjást einnig oftar af tannholdsbólgum sem geta einnig aukið andremmu.
Ýmsir sjúkdómar:
Sýkingar í kinnholum, hálskirtlum og aðrar loftvegasýkingar geta valdið andremmu, einnig getur vélindabakflæði valdið andremmu. Sjúkdómar í nýrum, lifur og sykursýki geta einnig valið sérkennilegri lykt úr vitum. Þá geta ýmis lyf valdið slæmri lykt úr vitum.
Ég ráðlegg þér því að bursta tennur og tungu vandlega eftir hverja máltíð og skipta um tannbursta á 2 – 3 mánaða fresti. Notaðu tannþráð daglega og drekktu mikið af vatni, til að halda munninum rökum. Forðast skal að drekka mikið af kaffi og gosdrykkjum. Sykurlaust tyggigúmmí getur einnig hjálpað til við að halda munninum rökum, það hvetur munnvatnsframleiðslu og hjálpar til við að skola í burtu matarleifum og bakteríum. Pantaðu tíma hjá tannlækninum þínum og segðu honum frá þessu vandamáli þínu. Ef tannlæknirinn finnur ekki neitt sem getur orsakað andremmu er rétt að þú hafir samband við heimilislækninn þinn sem metur hvort og hvernig er ástæða til að rannsaka þetta vandamál frekar.
Gangi þér vel,
Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.