Að halda sér í formi á meðgöngu

Spurning:

Sæl Ágústa

Ég er 21 árs og er ófrísk að fyrsta barni og finn að matarlystin hefur aukist mikið upp á síðkastið. Ég hef alltaf verið grönn og vil síður fitna mikið og vil nú byrja að hreyfa mig eitthvað þ.e.a.s. byrja í leikfimi. Ég hef reyndar ekki stundað mikla hreyfingu og vinn í banka og sit því allan daginn.

Með hverju mælir þú fyrir mig ef tekið er inn í myndina að nú eru ábyggilega 3 ár síðan ég var síðast í leikfimi. Og einnig hversu oft á ég að fara? Er ekki alveg öruggt að það sé ekki óhollt fyrir mig útaf barninu? Mér er líka sagt að ef konur halda sér í formi séu minni líkur á að þær fái grindargliðnun, er það rétt?

Kveðja

Svar:

Til hamingju með að vera barnshafandi. Það er mjög gott og eiginlega nauðsynlegt að hreyfa sig á meðgöngu svo framarlega sem meðgangan er eðlileg. Ekki er samt ráðlagt að hefja átak í líkamsrækt á meðgöngu. Þumalfingursreglan er að halda áfram að gera það sem maður er vanur að gera þannig að þær sem eru vanar að stunda þjálfun eiga tvímælalaust að halda því áfram og hægja svo smám saman á sér þegar líður á meðgönguna. En þú segist ekki hafa hreyft þig mikið síðustu 3 ár og því myndi ég ráðleggja þér að byrja á því að ganga rösklega, annað hvort úti við eða á göngubretti. Þú ættir líka að stunda styrktaræfingar hvort heldur sem er með léttar þyngdir í tækjum eða hefðbundnar leikfimiæfingar. Þú ert ung og ef þú ert vel hraust ættirðu endilega að drífa í því að byrja að hreyfa þig reglulega. Gakktu í 30 mínútur á dag og gerðu æfingar þrisvar í viku fyrir alla helstu vöðvahópa líkamans. Teygðu varlega á eftir æfingar þar sem að á meðgöngutímanum gefur líkaminn meira eftir og því meiri hætta á meiðslum. Þegar þú ert komin lengra en 20 vikur er ekki ráðlegt að gera kviðæfingar liggjandi á bakinu þar sem viss hætta er á að fóstrið verði fyrir súrefnisskorti. Aðal atriðið er að fara bara rólega af stað og hlusta á líkamann. Þú finnur best sjálf hvað þú þolir.

Gangi þér vel,

kveðja,
Ágústa Johnson