Að hætta á Seroxat

Spurning:

Kæri netlæknir.

Ég er búin að vera á lyfinu Seroxat frá því í nóvember á síðasta ári. Ég reyndi að hætta í sumar en fór að líða jafn ílla mjög fljótlega. Mér var ráðlagt að byrja aftur og gerði það. Ég var lengi að jafna mig aftur og en er orðin skárri núna. Mun ég alltaf finna fyrir depurðar- og kvíðaeinkennum í hvert skipti sem ég reyni að hætta á lyfjunum, eða kemur að því að ég get hætt án þess að finna fyrir einkennum þ.e. verð læknuð?

Svar:

Þegar hætt er á Seroxat er mælt með því að hætt sé smám saman, þ.e. að minnka skammtana smám saman og hætta svo. Það minnkar líkur á óæskilegum áhrifum sem geta orðið við það að hætta lyfjatökunni. Lyfin eru fyrst og fremst notuð til að vinna á einkennum en þau lækna í sjálfu sér ekki. Þannig að á meðan „illa“ stendur á þá er mikil hjálp í lyfjunum og þau hjálpa oft fólki að ná sér út úr erfiðleikum eða almennum þyngslum. Eins og þú hefur gert, þá er gott að reyna að hætta þegar þú telur (e.t.v. í samráði við lækni) að heilsu sé náð. Vonandi gerist það innan tíðar að þú getur hætt alveg að taka Seroxat.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur