Æðahnútar við leggöng

Spurning:
Vandamálið mitt eru æðahnútar og þeir eru alls ekki á skemmtilegum stað, á börmum og við legopið. Ég er komin 35 vikur á leið og er búin að finna eymsli í ca.18 vikur en er fyrst núna að átta mig á hvað vandamálið er. Við hjónin höfum ekki getað stundað kynlíf í margar vikur og held ég að þessir æðahnútar séu ástæðan, ég finn svo mikinn þrýsting, verð eldrauð og þrútin og verkjar í marga klukkutíma á eftir og get t.d.ekki setið. Hvað á ég að gera? Hvernig verður það fyrir mig að fæða barnið með þetta á þessum stað? Ættum við hjónin að reyna kynlíf á næstunni, ég kvíði reyndar mikið fyrir vegna þess hvernig mér hefur liðið eftirá. 

Með fyrirfram þökk.

Svar:
Þetta er hvimleitt vandamál sem hrjáir þig en von til að ástandið lagist þegar barnið er fætt. Ástæða þess að æðahnútar myndast þarna er mest þrýstingur frá þunga legsins en einnig mýking í æðaveggjum vegna meðgönguhormóna. Oft gefst vel að liggja á 4 fótum smástund af og til yfir daginn til að létta þunganum af grindarbotninum en einnig getur hjálpað að skola yfir grindarbotninn með hálfköldu vatni eða leggja kaldan bakstur við æðahnútana. Svo er það grundvallaratriði að halda hægðum mjúkum og reglulegum til að þurfa ekki að rembast við hægðalosun. Margar konur finna meira fyrir svona æðahnútum þegar líður nær fæðingu en svo er þetta oft ekkert verra og jafnvel skárra í fæðingunni sjálfri. Reyndu að finna stellingar í fæðingunni sem létta þrýstingi af grindarbotninum eins og 4 fóta stellingu eða liggjandi á vinstri hlið. Svo getur verið gott að halda þétt við botninn og alveg nauðsynlegt þegar kollurinn fæðist. Eftir fæðinguna getur tekið nokkra daga að lagast í botninum en þá getur þú líka notað þær aðferðir sem að framan getur og áfram skaltu gæta þess að hægðirnar haldist mjúkar og reglulegar.

Hvað varðar kynlífið þá er það vitaskuld þitt að segja hvað þú ert tilbúin í. Kynlíf á að vera gott fyrir báða aðila og ef þú kvíður fyrir samförum og svíður lengi á eftir er það varla þess virði. Undir svona kringumstæðum verður að gera málamiðlanir og ekki hægt að ætlast til þess að konan þurfi að líða fyrir kynlífið. Hví ekki að nota aðrar aðferðir til kynferðislegrar fullnægju á báða bóga þar til þú treystir þér aftur til að stunda samfarir?

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir