Æskilegt rakastig í skrifstofuhúsnæði?

Fyrirspurn:

Hvert er æskilegt rakastig í skrifstofuhúsnæði? Hver eru hugsanleg áhrif þess ef raki er of lítill eða of mikill?

Svar:

Atriði sem þarf að taka tillit til þegar verið er að mæla og athuga raka og hitastig:
 

Hitastig:
Viðmiðun vegna hitastigs við kyrrsetustörf er 18-22°C. Við kyrrstöðustarf er hæfilegt hitastig 16-18°C.
Of hátt hitastig veldur því að menn verða dasaðir og sljóir. Of kalt veldur óþægindum og ónákvæmari hreyfingum. Í báðum tilvikum minnka afköst og einbeiting starfsmanna. Hitastig er yfirleitt mismunandi eftir því í hvaða hæð frá gólfi er mælt. Heita loftið er léttara en það kalda og safnast því heita loftið fyrir uppi við loft/þak og kalda loftið liggur niðri við gólf.
Þetta er öfugt við það sem þyrfti að vera m.t.t. þarfa mannsins, sem þarf frekar heitara við fætur sér heldur en andlit. Fari lóðrétt hitastigsbreyting ekki yfir 2°C/m er ekki talið að hún valdi óþægindum.
 

Rakastig:
Viðmiðun vegna rakastigs er 30-60%. 30% rakastig segir að vatnsinnihald loftsins sé um 30% við ákveðið hitastig.Rannsóknir hafa sýnt að menn verða ekki fyrir óþægindum þó rakastig lofts fari niður í 25% ef loftið er hreint og ryklaust. Um leið og ryk eða önnur mengun er fyrir hendi þarf hinsvegar að hækka rakastigið til að viðkomandi sleppi við óþægindi.
Ef loftið er mjög þurrt getur slímhúðin bæði í nefi og hálsi þornað og okkar náttúrulega vörn gegn sýkingum þar með minnkað. Sýkingarhættan er þess vegna hærri við lágt rakastig en hátt.
Einnig er talið að lágt rakastig auki rykmyndun og myndun stöðurafmagns og geri það að verkum að rykagnir svífa lengur, rykið sest síður.
 

Tengsl hita- og rakastig:
Rakastig loftsins er háð hitastiginu. Þægilegast er talið að það sé á bilinu 30-40% í 20°C hita og hreinu lofti. Hærra hitastig getur bundið meiri raka, þannig að hærra hitastig lækkar rakastigið.
 

Inniloft og loftræsting:
Oft finna einstaklingar einkenni sem þeir vilja rekja til of lítils raka. Má þar nefna varaþurrk, þurrkur í munni og hálsi og höfuðverkur. En einkennin geta einnig komið vegna þess að loftskipti í vinnurými eru ekki nægjanleg.
Mæling á CO2 (koltvísýrings) í innilofti hefur verið notað til að meta hvort loftskiptin séu eðlileg.
Viðmiðunarmörkin hafa verið sett við að styrkur CO2 fari ekki yfir 1000 PPM (parts per million) og gerðar kröfur um aukin loftskipti ef styrkurinn fer umfram þau mörk að meðaltali t.d. mælt yfir 1 klst. Víða erlendis er viðmiðunin 800 PPM að meðaltali og ekki yfir 1000 PPM sem skammtímagildi. Þessa mælingu framkvæmir Vinnueftirlit ríkisins.
 

Úrbætur.
Ýmislegt er hægt að gera til að auka raka og bæta loftskipti;
Tryggja betri loftskipti með loftræstingu, sem er a.m.k. höfð í gangi yfir kvöld og nætur.
Opna glugga reglulega og opna hurðir fram til að loftið endurnýjist betur.
Lækka hitastig í herbergi.
Setja hurðar á hillur sem innihalda mikið af pappír.
Fá lokað rakatæki.
Grænar blaðmiklar plöntur. Vökva þær!

Heilsuverndarstöðinni 30. jan. 2008
Ágústa Guðmarsdóttir sjúkraþjálfari
agusta@heilsuverndarstodin.is