Eikur það á asma að mæðast eða þjálfast maður upp og fær minni asma?
Góðan dag og þakka þér fyrir fyrirspurnina, ég vil fyrst benda þér á þessa grein hér með góðar upplýsingar um astma
Astmi er sjúkdómur í öndunarfærum sem einkennist af bólguviðbrögðum í berkjum lungnanna.
Ein tegund astma er áreynsluastmi sem veldur vöðvasamdrætti og bólgubreytingum í berkjum sem fara af stað við líkamleg átök eða líkamsrækt. Þetta leiðir til þrenginga í lofvegunum vegna bólgu, slímmyndunnar og vöðvasamdráttar sléttra vöðva niðri í berkjunum.
Fólk með þessa tegund astma fær, í sumum tilvikum, einkennin eingöngu við líkamleg átök. Orsakir þessa eru taldar vera skyndilegar breytingar í raka- og hitastigi, þurrkur, kuldi eða ofnæmisvakar í loftinu. Við áreynslu breytist öndunin í munnöndun í stað neföndunar og þar munar miklu á rakastigi öndunarinnar.
Þessi sjúkdómur er nokkuð algengur hjá íþróttamönnum. Einnig er þetta algengt hjá fólki sem er með öndunarfærasýkingar eða í litlu líkamlegu formi. Einkenni áreynsluastma koma oftast fram eftir um fimm til tuttugu mínútur í áreynslu. Greining á áreynsluastma er gerð af lækni.
Einkenni geta verið mjög einstaklingsbundin en algengust einkenni eru:
- Hvæsandi öndun, píp eða surg
- Hósti
- Mæði
- Þyngsli fyrir brjósti
- Þreyta
- Minnkað þol
Fyrirbyggjandi ráðstafanir:
Til að minnka líkurnar á því að einkenna áreynsluastma verði vart við æfingar er best að nota berkjuvíkkandi lyf fimmtán til tuttugu mínútum fyrir áreynslu. Hita svo rólega upp áður en full áreynsla byrjar. Passa vel að vökvainntekt sé næg og stoppa ef einkenna verður vart. Teygja vel og hægja rólega á æfingum í lokin. Ef kalt er í veðri nota trefil eða andlitsgrímu sem hjálpar til við að hita loftið upp og sía það. Varast að æfa úti í miklum kulda, sót- eða rykmengun og þegar frjókornamagn er mest í lofti hjá þeim sem hafa slíkt ofnæmi.
Ef viðvarandi astmaeinkenni eða fyrirbyggjandi meðferð með berkjuvíkkandi lyfjum dugar ekki þarf að nota lyf sem ráðast að rót bólgunnar. Slík lyf eru í flestum tilfellum innúðasterar.
Með fræðslu, góðu eftirliti læknis og lyfjagjöf ætti ekki að vera vandamál stunda íþróttir eða æfingar vegna áreynsluastma. Margir afreksíþróttamenn og konur hafa astma. Með því að fylgjast vel með sínum einkennum, góðri þekkingu, stöðugu eftirliti og meðferð eiga allir sem hafa astma að geta stundað líkamsæfingar.
Gangi þér vel,
Sigríður Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur