Spurning:
Ég get hvergi fundið neitt um efrtirfarandi einkenni; annað augað byrjar að roðna og bólgna, þetta breytist smá saman til hins augans og þessu fylgir geigvænlegur höfuðverkur og blinda ásamt algerri ljósfælni. Tilvonandi tengdasonur minn hefur fengið þetta einu sinni áður og var þá sagt af lækni, sem ekki gat sagt hvað var að, að fara heim og leggja sig, ca. tvö ár síðan, hann lokaði sig inni í myrkri og át allar verkjapillur sem hann komst yfir í 7-8 daga, nú er þetta allt í einu að taka sig upp aftur og þar sem hann bæði er þrjóskur og hefur ekki of góða reynslu af læknisheimsóknum, neitar hann að fara aftur
Svar:
Þetta hljómar nú hálfilla! Ég á erfitt með að geta mér til hvað veldur þessu. Þetta gæti verið slímhimnubólga, en verkirnir passa illa við það. Helst dettur mér í hug lithimnubólga, sem er sjúkdómur sem þarf að fá greiningu og rétta meðhöndlun. Þetta þarf þó fyrst og fremst augnskoðun og trúi ég ekki öðru en að finnist augnlæknir sem væri til í að kíkja á strákinn!
Gangi ykkur vel,
Jóhannes Kári.