Hæhæ. Mig langar svo að vita hvers vegna fólk mælist með of hátt B12 þegar það tekur ekki einu sinni B12. Hvað er að gerast í líkamanum?
Góðan dag og takk fyrir fyrirspurnina.
B12 vítamín fáum við úr fæðu s.s. lifur, nautakjöti, svínakjöti, fisk og mjólkurvörum en ekki úr grænmeti eða jurtum. B12 ofgnótt er almennt talin mjög sjaldgjæf þar sem vítamínið frásogast með flóknu ferli úr meltingarveginum og nýtist því aðeins hluti af því sem við neytum. B12 er einnig vatnsleysanlegt vÍtamín og skilst þar að leiðandi út með þvagi ef innbyrgt er of mikið af því, ólíkt fituleysanlegum vítamínum sem safnast fyrir í líkamanum. B12 ofgnótt í blóði ein og sér er ekki talin geta valdið eitrunaráhrifum en getur verið vísbending um undirliggjandi sjúkdóma s.s. lifra- eða nýrnasjúkdóma, það ætti því alltaf að skoða það nánar hjá lækni ef of hátt gildi B12 greinist í blóði. Í sumum tilfellum getur verið að líkaminn sé ekki að nýta það B12 sem hann frásogar og situr þá vítamínið eftir í blóðinu sem orsakar þannig há blóðgildi. Það er einnig eitthvað sem skoða þarf nánar hjá lækni þar sem þetta getur leitt til sömu einkenna og B12 skortur.
Gangi þér vel
Oddný Þorsteinsdóttir, hjúkrunarfræðingur