Sælar,
Ég er með svo mikið sigg á hælunum og ekkert virkar almennilega fyrir mig. Fyrir meðgöngu var ég vön að nota Babyfoot peeling maska en á umbúðunum stendur að það se ekki ráðlagt að nota það a meðgöngu eða i brjóstagjöf svo ég hætti að nota það á meðgöngunni. Sonur minn er 8 mánaða og ennþá á brjósti (+barnamat). Mín spurning er svohljóðandi: Hvað gæti gerst ef ég nota Babyfoot fótamaskann núna?
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,
Ástæðan fyrir því að ekki er mælt með notkun BabyFoot fótamaska á meðgöngu og við brjóstagjöf er tvíþætt. Í fyrsta lagi er skýringin sú að maskinn inniheldur salicylic sýru sem er skaðleg fósturþroska og getur efnið mögulega borist til barns við brjóstagjöf og valdið skaðlegum áhrifum á barnið. Í öðru lagi nefnir framleiðandi að möguleiki sé á auknum viðbrögðum húðar móður við efnum í maskanum þar sem viðkvæmni húðar getur aukist gríðarlega vegna breytinga á hormónaframleiðslu á meðgöngu og við brjóstagjöf.
Áhrifin af þessu geta svo aukist þar sem um er að ræða meðferð þar sem efnið er látið sitja á húð í nokkurn tíma áður en það er skolað af. Þetta getur þar af leiðandi náð að frásogast í magni sem gæti mögulega haft skaðleg áhrif á barnið og/eða valdið ofnæmisviðbrögðum hjá móður.
Gangi þér vel
Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur