Þarf að fylgjast með hormónajafnvægi á meðgöngu?

Spurning:

Sæl.

Mig langar að forvitnast aðeins. Ég er ófrísk, komin 19 vikur og allt virðist vera í lagi. Áður en ég varð ófrísk var ég með mikla og langvarandi hormónaóreglu (m.a. hækkað prolaktín o.fl.) og ekki var gert ráð fyrir að ég gæti orðið þunguð án aðstoðar. En svo gerðist það óvart!:)

Ég var bara að velta því fyrir mér hvort að ástæða væri til að fylgjast með hormónajafnvæginu á meðgöngu eða hvort ég á að gera ráð fyrir að allt hafi „smollið í rétta gírinn“.

Svar:

Sæl.

Ef einungis var um prólaktínójafnvægi að ræða ætti ekki að þurfa að fylgjast sérstaklega með því á meðgöngunni. Öðru máli gegnir ef óregla hefur verið á öðrum hormónum eins og skjaldkirtilshormónum. Ræddu þetta við lækninn þinn í mæðraverndinni til að vera viss.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir