Þarf ég að fara í útskröpun eftir fósturlát?

Spurning:

Góðan daginn.

Ég 27 ára og búin að reyna að verða ófrísk í 9 mánuði. Það tókst loksins en það varð ég fyrir því óhappi að missa fóstrið þegar ég var komin 7-8 vikur á leið. Fólk furðar sig á því að ég hafi ekki farið í útskröpun og sjálf hef ég heyrt að allar konur fari útskröpun til að koma í veg fyrir sýkingarhættu. Nú er tæpur mánuður síðan þetta gerðist. Fyrir 1 1/2 viku hætti að blæða(blæddi ekki beint heldur kom eitthvað sem kemur ekki þegar maður er á venjulegum túr) en nú er líkaminn aftur farin að skila einhverju út (ekki blóð). Er þetta allt saman eðlilegt?

Ég geri þessa fyrirspurn því ég bý úti á landi og finnst ég ekki hafa fengið nein svör frá lækninum og finnst ég frekar óörugg með þetta allt saman.

Annað sem mig langar að vita og það er hversu langan tíma ég á að láta líða þangað til að ég get byrjað að reyna aftur að verða ófrísk?

Með fyrirfram þökk.

Svar:

Sæl og blessuð.

Það var leitt að þú skyldir missa fóstrið eftir svona langan tíma að reyna að eignast barn. Oftast er það nú svo að konur fara í útskröpun eftir fósturlát til að vera vissar um að allur fósturvefurinn skili sér. En það er ekki alltaf nauðsynlegt og fer eftir því hversu vel þetta skilar sér. Því styttra sem konan er gengin þegar fósturlát verður, þeim mun meiri líkur eru á að allur fósturvefur skili sér. En úr því að þú varst svona lengi með hreinsun og nú er aftur eitthvað að koma hjá þér teldi ég öruggast að þú létir athuga þig vel hjá kvensjúkdómalækni. Best væri ef hann gæti athugað með sónartæki hvort eitthvað er eftir inni í leginu sem ekki á að vera þar. Ef einhver fósturvefur er eftir inni í leginu verður að fjarlægja hann svo ekki komi sýking og eðlileg hormónastarfsemi geti aftur komist á hjá þér. Það er talið ráðlegt að bíða í ca. 3 mánuði með að verða þunguð aftur eftir fósturlát. Notaðu tímann og byggðu þig upp með hollu mataræði og hreyfingu og taktu fólínsýru því hún minnkar líkurnar á fósturgöllum.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir