Spurning:
Sæll sérfræðingur.
Ég er 21 árs móðir sem tek enn í dag Exlutona þrátt fyrir að ég hætti með stelpuna mína á brjósti um miðjan apríl. Ég hef ekki haft neinar blæðingar. Er rétt að ég skipti um pillu vegna hormónabreytinga sem verða við stöðvun brjóstagjafar? Get ég orðið ólétt á Exlutona ef ég tek hana eftir leiðbeiningum?
Kveðja,
Ein í hugleiðingum.
Svar:
Sæl.
Ef pillan er rétt tekin eru ekki miklar líkur á að þú verðir barnshafandi á henni (ca. 98% öryggi). Það ætti því að vera óþarft fyrir þig að skipta um pillutegund ef þér líkar þessi pilla. En hún er vitaskuld ekki jafn örugg og samsettu pillurnar og þú verður að gæta þess að taka hana alltaf á sama tíma á hverjum degi. Skoðaðu annars málið með lækninum þínum ef þér finnst þú ekki nægilega vel varin fyrir þungun.
kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir