Barneignir – frjósemi?

Spurning:
Ég verð 28 ára fljótlega. Það er alltaf verið að reka á eftir mér og mínum þegar talað er um börn. Það er sama hvar og hvenær við hittum fólk þetta er alltaf rætt. Það er verið að ræða um aldurinn okkar, en hann er þrítugur bráðum. Einhversstaðar sá ég að konur eru frjósamastar eftir 28 ára aldurinn. Þetta gerist bara svo seint hjá fólki í dag því það eru allir að bæta við sig meiri menntun. Hann vill bæta einni menntun við sig sem tekur eitt ár.
En er svo erfitt að reyna að eignast börn eftir 28 ára aldurinn? Það er mjög óeðlilegt í augum fólks sem við hittum að við eigum ekkert barn. Hef haft áhyggjur um að það verði erfitt því lífklukkan tifar!!! Ég hef þráð barn í mörg ár, en forðast að ræða það svo hann fjarlægist mig ekki. Hef heyrt sögur um að pör fjarlægist ef þetta er rætt. Kannski best að ræða þetta ekki og leyfa þessu bara að gerast og segja, úbbs, æ æ, vissi þetta ekki:) (sem ég myndi gera) en finnst best að vera í þessari ákvörðun saman. Samband okkar hefur enst í um 2 ár núna Leiðrétting…konur séu frjósamastar FYRIR en ekki EFTIR 28 ára aldur.

Svar:
Það hefur nú alltaf þótt best í öllum samböndum að meiriháttar ákvarðanir séu teknar í sameiningu. Ef hann á eftir eitthvert nám er skiljanlegt að hann vilji bíða með barneignir þar til því er lokið og hann getur slakað á og notið þess að verða faðir. Einnig er hann líklegri til að hafa tíma og tækifæri til að taka fullan þátt í meðgöngunni og njóta hennar með þér ef hann er þátttakandi í ákvarðanatökunni um barneignir. Þótt fólk sé að reka á eftir ykkur þá er það eruð það þið sem ákveðið hvort og hvenær þið eignist börn því það eruð jú þið sem þurfið að annast það og sjá fyrir því. Að láta þetta bara gerast ,,óvart" er ekki heiðarlegt gagnvart manninum. Hvað varðar aldurinn þá eru 28 ár enginn vendipunktur hvað varðar frjósemi kvenna heldur er talað um að konur séu frjósamastar milli 16 og 28/30 ára en eftir það fari frjósemin hægt minnkandi og taki stundum lengri tíma að verða barnshafandi en áður.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir