Baugar undir augum

Hvað getur valdið því að ég er búin að vera með leiðinlega bauga undir augunum í ca 2 ár ? Er reyndar 72 ára.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Baugar eða pokar undir augum ganga oft í erfðir og þá lítið hægt að gera við því.  Með árunum þynnist einnig húðin undir augum og á augnlokum og þá verða æðar sýnilegri og augnumgjörð dökknar við það.  Ef miklir pokar fylgja baugum er þar vökvasöfnun sem getur komið í kjölfar mikillar saltneyslu eða minna þol fyrir söltum mat eða þreytu. Húðin gefur einnig meira eftir þegar við eldumst og vökvi safnast því auðveldar fyrir í hrukkur og fellingar og mynda poka. Ef pokar myndast skyndilega getur það verið vegna ofnæmis fyrir einhverju sem er borið á andlit eða augu.  Baugar og pokar verða oft meira áberandi hjá reykingafólki vegna áhrifa reykinga á æðar og húð.  Ef þú hefur verulegar áhyggjur af baugum skaltu leita til læknis og þá sérstaklega ef pokar verða miklir og vökvasöfnun er líka annars staðar á líkamanum.

 

Gangi þér vel,

Guðrún Ólafsdóttir

Hjúkrunarfræðingur