Spurning:
Ég er komin rúmar 11 vikur á leið. Ég hef fundið fyrir mjög aukinni hungurtilfinningu, þannig að mér verður stundum óglatt af hungri, þrátt fyrir að ég hafi borðað eðlilega þann daginn. Hvað gæti orsakað þetta? Einnig er ég í áhættuhóp varðandi beinþynningu, þar sem móðuramma mín er mjög slæm og móðir mín einnig í áhættuhóp. Ég fór í mælingu fyrir nokkrum árum síðan og kom ekki vel út. Hefur þetta einhver sérstök áhrif á meðgönguna? Ég tek bæði fjölvítamín og kalktöflur.
Kveðja
Svar:
Lítill beinmassi hefur ekki áhrif á meðgönguna en hins vegar hefur meðgangan áhrif á beinmassann og þú þarft að vera duglega að borða kalkríka fæðu og taka lýsi alla ævi.
Hvað varðar hungurtilfinninguna þá er þetta vel þekkt fyrirbæri á meðgöngu og er næsta skref við hina vel þekktu meðgönguógleði. Besta ráðið við þessu er að borða reglulega og þá mat sem stendur með þér eins og gróft brauð, kjöt, fisk, egg og mjólkurvörur og gott er að hafa alltaf möguleika á að grípa í ávexti og grænmeti til að borða milli mála. Mörgum líður best að vera alltaf ,,á beit" þ.e. narta í eitthvað allan daginn. Ef þetta heldur áfram eftir 16 vikna meðgöngu væri e.t.v. rétt að skoða hjá þér blóðið m.t.t. járnskorts því hann getur einnig lýst sér í svona tilfinningu.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir