Besti tími fyrir getnað

Fyrirspurn:

Sæl, Við hjónin erum að hugsa um að eignast barn og höfum verið að lesa okkur til um hvenær sé heppilegasti tími fyrir getnað. Oftast er sagt 14 dögum eftir fyrsta dag blæðinga. Ég er búin að vera á pillunni í að verða 9 ár. Tek hana í 3 vikur og pása í eina viku. Í þeirri viku rokkar aðeins hvaða dag blæðingarnar byrja, þ.e. ef þær byrja yfirleitt.

Mín spurning er því: Þegar sagt er 14 dögum eftir fyrsta dag blæðinga er þá átt við fyrsta daginn sem ég tek ekki pilluna eða fyrsta daginn sem mér blæðir?

Svar:

Sæl,

Það er átt við 14 dögum eftir fyrsta dag blæðinga – þá hefst nýr tíðahringur.

Þar sem þú ert búin að vera lengi á pillunni þá getur tekið tíma fyrir líkamann að aðlagast eftir þá hormóna.  Pillan stoppar egglos og það getur tekið tíma að það komist regla á það aftur.  6-12 mánuðir eru ekkert óalgengur tími frá því að konur hætta á pillunni og þangað til þær verða þungaðar.  Blæðingarnar geta líka verið aðeins óreglulega fyrstu mánuðina eftir að pillunni er hætt og oft er mælt með að nota t.d. smokk í smá tíma sem getnaðarvörn þannig að líkaminn sé aðeins komin á rétt ról því sumar konur verða fljótt ófrískar.  Gefa sér smá tíma til að undirbúa líkamann fyrir þungu, taka vítamín, fólinsýru, hreyfa sig og borða fjölbreytt.

Gangi þér vel,

Kristín Svala Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir