Birkihylki – eru þau undralyf?

Spurning:

Sæll.

Ég fann grein í einu apótekinu um Birkihhylki úr birkitré sem fannst í Finnlandi fyrir 51 ári. Þar kemur fram að Guð hafi skapað tréð til lækningar mannkynsins. Þessi hylki eru samþykkt af lyfjaeftirlitinu og seld víða í heilsubúðum og apótekum. Í greininni kemur fram að hylkin hafi læknað krabbamein, gigt, brjóstsviða, psoriasis, mígreni, exem, háls-, nef og eyrnabólgur og skalla. Þetta er sem sagt allsherjar undralyf sem og orkugjafi. Það sem mig langar til að vita er hvort þú vitir eitthvað um lyfið, hvort þetta sé rétt sem kemur fram eða hvort þú mælir með því?

Kærar þakkir og kveðjur.

Svar:

Ég þekki þetta ekki, en EF Lyfjastofnun (áður Lyfjaeftirlit og Lyfjanefnd) hefur samþykkt vöruna þá er hún örugglega ekki hættuleg í venjulegum skömmtum. En engu að síður leyfi ég mér að efast um að verkanir þessa ágæta efnis séu eins víðtækar og góðar og sagt er hér að ofan. Mörg náttúrulyf innihalda mörg virk efni og það getur verið flókið að finna út milliverkanir við önnur lyf. Ég ráðlegg þér því að fara með innihaldslýsingu birkihykjanna til læknis eða lyfjafræðings ef þú ert að taka önnur lyf. Þá er hægt að athuga hvort einhver hætta er á ferðum.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur