Bitin við brjóstagjöf – hvað er til ráða?

Spurning:

Kæra Dagný.

Ég á fjögurra og hálfs mánaða gamlan son sem er komin með tvær tennur. Hann er búinn að vera mjög pirraður í gómnum og áður en tennurnar komu beit hann/nuddaði með gómnum í mig þegar ég hef var að gefa honum brjóstið. Núna eru tvær tennur komnar og hann hefur í tvígang bitið mig (annað skiptið svo blæddi). Ég veit að hann gerir sér enga grein fyrir því hvað hann er að gera en eru einhver ráð til fyrir mig svo hann geri þetta ekki aftur?

Svar:

Sæl.

Óskapa bráðlæti er þetta í unganum að vera að fá tennur svona snemma. Það getur verið svolítið snúið að kenna svona litlu barni að bíta ekki. En það er hægt með smá þolinmæði. Reyndu að forðast að gera mikið mál úr þessu hjá honum því þá er hætt við að hann verði hvekktur og vilji ekki taka brjóstið.
Það er helst að hann bíti þegar rennslið fer að minnka í brjóstinu, svo þú getur þannig fylgst með því sem er að gerast. Eins bíta börn stundum til að fá athygli móður sinnar ef þeim finnst hún vera að sinna einhverju öðru en þeim. Taktu eftir því að það er ekki hægt að sjúga og bíta á sama tíma. Ef maður gerir það þá bítur maður í tunguna á sér. Þetta getur þú notfært þér á litla manninn. Styddu fingri mjúklega á kjálkann á honum meðan hann er að sjúga. Þegar hann hættir að sjúga og þú finnur að hann byrjar að spenna saman kjálkann, setur þú fingur í munnvik hans, á milli gómanna og dregur geirvörtuna út. Þú getur lagt enn betri áherslu á þetta með því að horfa á hann og segja: Ekki bíta. Ef þú ert alveg samkvæm sjálfri þér í að taka hann alltaf af þegar hann byrjar að spenna kjálkann, tengir hann þetta smám saman (spenni kjálka = fæ ekki brjóst) og hættir að bíta.

Gangi ykkur vel.

Dagný Zoega, ljósmóðir