Þjálfun á meðgöngu?

Spurning:
Sæl!
Ég er komin 14 vikur á leið og hef alltaf verið mjög dugleg að hreyfa mig og verið í góðu formi. Mig langar að vita hvaða æfingar í lyftingarsal ég MÁ gera og hvaða æfingar ég MÁ EKKI GERA? Er í lagi að hlaupa, hjóla og vera á tröpputæki í 30-40 mín. og svitna svolítið vel? Ég er ekkert búin að vera með neinn svima eða ógleði og er mjög heilsuhraust.
Hvað má ólétt kona borða ca. margar kaloríur á dag til þess að nærast vel og eðlilega og halda sér og barninu í góðu formi?:) Með fyrirfram þökk:)

Svar:
Sæl.

Til hamingju með þungunina. Þjálfun á meðgöngu hefur reynst mjög gagnleg til að búa konur undir fæðinguna og getur jafnframt stuðlað að því að þær nái sér fyrr eftir barnsburð. Þjálfun á meðgöngu ætti þó ekki að vera mjög áköf, áhættusöm eða á einhvern hátt líkleg til að skerða súrefnisflæði til fóstursins því heilsa barns og móður skiptir mestu máli.

Áður fyrr var konum ekki ráðlagt að reyna á sig á meðgöngu en nú eru þær hvattar til að halda áfram að stunda þær þolæfingar sem þær eru vanar. Þær konur sem ekki hafa stundað þolþjálfun ættu að bíða með að hefja slíka þjálfun þar til eftir barnsburð. Niðurstöður könnunar sem birtust í nýlegu riti American Journal of Obstetrics and Gynecology sýna fram á að hjá börnum kvenna sem stunduðu þjálfun á meðgöngu (65 til 110% af því sem þær voru vanar áður en þær urðu vanfærar) mátti greina jákvæð áhrif nokkrum dögum eftir fæðingu. Börnin voru fyrri til að örvast af umhverfinu og höfðu meiri áhuga á umhverfinu og sýndu meiri viðbrögð við hljóðum og annari vægri örvun og voru einnig værari en önnur börn. Könnunin var gerð á 5 daga gömlum börnum.

Í Canadian Journal of Applied Physiology birtust niðurstöður annarar rannsóknar sem gerð var á styrktarþjálfun ófrískra kvenna. Fylgst var með hjartslætti og blóðþrýstingi móður og hjartslætti fósturs á meðan konurnar gerðu sitjandi fótaréttu æfingu og sömu æfingu liggjandi á baki í 30% halla. Ófrísku konurnar sýndu hærri hjartslátt en svipaðan blóðþrýsting og aðrar konur. Aðeins bar á hækkuðum hjartslætti hjá fóstri í liggjandi stöðunni sem gefur til kynna að ekki er æskilegt að gera æfingar í þeirri stöðu á síðari hluta meðgöngu. Niðurstöðurnar sýndu að öðru leyti að heilbrigðum barnshafandi konum er óhætt að stunda styrktarþjálfun.

Könnun á þjálfun eftir barnsburð var gerð á rúmlega 1000 konum til að rannsaka áhrif þjálfunar á meðgöngu og eftir barnsburð og kanna hugsanlega ávinninga eða áhættu. Þátttaka í kröftugri þjálfun sex vikum eftir barnsburð sýndi greinilega fram á líkamlega ávinninga. Kröftug þjálfun hafði ekki áhrif á mjólkurframleiðslu í þessari könnun. Konur sem voru virkari sátu síður uppi með auka kíló en þær sem ekki stunduðu þjálfun. Það sem vakti athygli var að þær konur sem voru virkari á meðgöngu þótti meðgangan og fæðingin ánægjulegri. Í stuttu máli, meiri hreyfing tengdist betri aðlögun á meðgöngu og eftir barnsburð í öllum atriðum sem mæld voru.

Þessar kannanir gefa til kynna að mælt er eindregið með hreyfingu á meðgöngu svo framarlega sem konur eru meðvitaðar um hugsanlega áhættu. Þjálfun veitir líkamlega og andlega ávinninga fyrir vanfærar konur og þjálfun skiptir einnig miklu máli í því skyni að fyrirbyggja sjúkdóma s.s. sykursýki á meðgöngu. Haltu því áfram að hreyfa þig reglulega en fylgstu ávallt vel með líðan þinni og sérstaklega þegar líður á meðgönguna.

Varðandi heitaeininganeyslu myndi ég ráðleggja þér að borða ekki færri en 2000 he. á dag af fjölbreyttri og hollri fæðu og taka inn fjölvítamíntöflu t.d. þessar fyrir verðandi mæður. Haltu þig við að borða hollan mat og sneiða hjá sætindum og næringarsnauðu ,,draslfæði" þá ertu að hugsa vel um þig og barnið þitt, stuðla að því að barnið verði hraust og í heilbrigðri þyngd og þú sjálf kraftmikil og munt ekki bæta á þig óhóflega á meðgöngunni.

Gangi þér vel.
Kveðja, Ágústa.