Þjáð af fyrirtíðaspennu eða?

Spurning:
Komið þið sæl.
Mér datt svona skyndilega í hug að spyrja ykkur út í fyrirtíðarspennu þar sem hún hrjáir mig 1-2 vikur í mánuði. Málið er þannig að ég er óvirkur alkóhólisti og fíkill og er ég búin að vera edrú í tvö ár, ég er í AA og er að vinna 12 spor AA og allt sem því fylgir og málið er að ég er líka með þunglyndi en er nú á tveimur lyfjum Cipralex og Risperdal og hafa þau verið að virka mjög vel. En svo kemur alltaf þessi tími í mánuðinum þar sem ég finn að hormónarnir eru á fullu og virkar það þannig að ég verð mjög döpur oft en mest kannski pirruð út í alla á heimilinu og einhvern veginn eru það alltaf sömu atriðin sem eru að bögga mig. Ég er 30 ára og er búin að vera í sambandi í 8 ár og við eigum tvo stráka, einn saman og ég átti einn áður en við byrjuðum saman og býr hann hjá okkur. Maðurinn minn kvíður alltaf svakalega fyrir þessum tíma og mér líka þar sem ég dett mjög niður og verð döpur og það merkilega er að ég átta mig alveg á því hvað er að en það er eins og ekkert virki á þetta, ég verð alveg svakalega sveiflótt eina stundina mjög kát og hina kannski grátandi þannig að þið sjáið að þetta hefur mikil áhrif á mitt líf. Ég var að spá hvort það sé virkilega ekkert hægt að gera í þessu sem hugsanlega gæti minnkað þessar hormónasveiflur? Ég hef m.a.s stundum verið að velta fyrir mér hvort ég þyrfti kannski að láta mæla hormónana í mér af því ég fer oft í svona svaka svitaköst og þá meina ég að það lekur af enninu á mér! En alla vega öll ráð eru vel þegin því þetta er að gera mig og fjölskyldu mína brjálaða!

Svar:
Kæri fyrirspyrjandi.
Lýsing þín samræmist í mörgu einkennum fyrirtíðaspennu. En þar sem svo mörg önnur fortíðarmál eru með í ferð, og þú á tveimur lyfjum, er nærri lagi að þú ræðir við þinn lækni um hugsanlega endurskipulagningu á lyfjum, eða breytingu þar eð væntanlega mætti ná samtímis árangri með geðlyfjum á þínum þunglyndisvanda og þessari fyrirtíðarspennu. Þá fyrst EF það skilaði ekki árangri kæmi önnur meðferð til greina.

Með bestu kveðjum og góðum óskum,
Arnar Hauksson dr med.