Blæðingar á sjöttu viku?

Spurning:
Ég er 28 ára og er í vafa og svolítilli sálarkreppu vegna þess sem á eftir er skrifað. Ég byrjaði ekki á réttum tíma á blæðingum og tók því ein 4 stk. þungunarpróf sem öll komu jákvæð út. En svo í gær, á 6. viku samkvæmt útreikningum frá síðustu blæðingum, byrja blæðingar, með brúnni útferð og svo venjulegum blæðingum. Ég hringdi niður á Landspítala, kvennadeildina, en þeir fást ekki einu sinni til að skoða mig, þrátt fyrir að ég eigi sögu um blöðrufóstur. Ég er enn á blæðingum:( Með ósk um svar sem fyrst!! Fyrirfram þakkir:)

Svar:
Komdu sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Af lýsingu þinni að dæma virðist því miður allt benda til þess að þú sért búin að missa fóstur en þú hefur greinilega verið orðið þunguð með 4 jákvæð þungunarpróf. Fósturlát er ein helsta skýring á blæðingum á fyrstu vikum meðgöngunnar og lýsir sér oft á þann hátt sem þú segir frá og því miður er ekkert hægt að gera í því. Ég tel rétt að þú leitir til heimilislæknisins þíns og fáir skoðun og ráðleggingar.
Gangi þér vel.

Kveðja, Brynja Helgadóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur