Blæðingar eftir brjóstagjöf?

Spurning:
Ég á 10 mánaða gamla dóttur og hætti ég með hana á brjósti fyrir tveimur mánuðum og hef ekki haft blæðingar ennþá. Ég er búin að vera á brjóstapilluni í hálft ár og er núna að byrja á pillunni sem ég var alltaf á. Ég er búin að taka þungunarpróf einu sinni síðan ég hætti með dóttur mína á brjósti og það var neikvætt. Hvað telst eðlilegt að líði langur tími þar til maður byrjar aftur á blæðingum?
Kveðja, 27 ára móðir

Svar:
Það getur verið alveg eðlilegt að allt að 3 mánuðir líði frá því þú hættir með barnið á brjósti þar til blæðingar byrja. Hins vegar ættir þú að hafa pillublæðingar úr því þú ert á pillunni. Byrjir þú ekki við næsta pilluhlé ættir þú að fá skoðun hjá kvensjúkdómalækni. Það væri kannski einnig rétt hjá þér að taka núna annað þungunarpróf þar sem hið fyrra gæti hafa verið of snemmt.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir