Blæðingar eftir fósturlát?

Spurning:
Kæru netdoktorar
Ég missti fóstur fyrir akkúrat 5 vikum, ég var nú aðeins komin 6-7 vikur á leið og fór til kvensjúkdómalæknis sem staðfesti það, því að það gerðist sama morgun. Þetta hreinsaðist út sjálft og þurfti því ekki útskröpun, ég á fyrir 5 ára barn. En ég hef enn ekki byrjað á blæðingum, er það eðlilegt og hvenær get ég átt von á að byrja á blæðingum? Og að lokum, hversu fljóttt get ég reynt aftur að verða ófrísk.
Kær kveðja

Svar:
Oftast líður aðeins rúmlega eðlilegur tíðahringur (þ.e. 4-5 vikur) frá fósturláti fram að næstu blæðingum en kona getur orðið barnshafandi strax í þeim tíðahring. Það er þó æskilegast að bíða í 3 mánuði með að verða aftur barnshafandi vegna þess að meiri hætta er á endurteknu fósturláti ef það líður mjög stutt á milli. Ef þú hefur ekki byrjað á blæðingum eftir viku skaltu taka þungunarpróf til öryggis og líði 8 vikur, eða meira, frá fósturlátinu án þess að blæðingar hefjist skaltu ræða við lækninn þinn.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir