Fyrirspurn:
Góðan daginn.
Ég fór í fóstureyðingu í kringum miðjan febrúarmánuð. Eftir aðgerðina fór ég ekkert á túr og hafði því samband við hjúkrunarfræðing á Landspítalanum þar sem ég fór í aðgerðina, hún skoðaði mig og sagði að það væri allt í lagi með legið. Mér var ráðlagt að fara á pilluna eftir aðgerðina og ég fylgdi fyrirmælum varðandi það. Ég tek Microgyn. Ég hef ekki farið á eðlilegan túr eftir aðgerðina, er á túr í mesta lagi 3 daga og það kemur ansi lítið. Einnig er sérkennileg áferð á blæðingunum, eins og blóðið sé þykkara en áður, og stundum þynnra. Ég fæ sára túrverki, en áður þekkti ég það ekki. Annað slagið finn ég fyrir óþægindum í leginu og stundum fæ ég sára verki sem líkjast hreinlega samdráttarverkjunum sem ég fékk eftir aðgerðina. Og svo uppá síðkastið hef ég fundið fyrir þrýstingi á pissublöðruna, sem lýsir sér þannig að ég þarf skyndilega að pissa, pissa lítið og svo fæ ég sáran verk einhvers staðar inní mér þegar pissublaðran er að tæmast. Stuttu seinna þarf ég aftur að pissa. En þetta gerist ekki alla daga, bara annað slagið og þá sérstaklega á morgnanna. Er þetta eðlileg afleiðing eftir fóstureyðingu? Eða er eitthvað að mér?
Kær kveðja,
Aldur:
23
Kyn:
Kvenmaður
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina
Fóstureyðing er inngrip sem getur alltaf haft einhverjar afleiðingar eins og þér hefur væntanlega verið kynnt á sínum tíma. Margt er hins vegar hægt að laga og bæta og eins eru þessi einkenni þess eðlis að það þarf ekki endilega að tengjast fóstureyðingunni á nokkurn hátt. Ég ráðlegg þér því að hafa samband við kvensjúkdómalækni og fá skoðun og ráðleggingar – sérstaklega varðandi þessa verki. Með bestu kveðjum
Guðrún Gyða, hjúkrunarfræðingur